138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

umferðarlög.

553. mál
[14:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að fjallað verður um málið í hv. samgöngunefnd. En það er ráðherrann sem setur reglugerðina og útfærir reglur um það hvaða búnaður muni uppfylla þau skilyrði að vera kallaður hlífðarbúnaður. Þess vegna var ég að kalla eftir afstöðu hæstv. ráðherra því að það er í hans höndum að gera það, og vænti þess að hann muni þá taka tillit til þeirra starfa sem fara fram í nefndinni.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um annað, þ.e. að gert er ráð fyrir því að þar sem settir eru af stað svokallaðir ökuskólar þurfi að lágmarki að vera starfandi fimm kennarar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hver hans skoðun sé og hvaða áhrif hann telur þetta geta haft, t.d. úti á landsbyggðinni, þar sem kannski einn ökukennari starfar á mjög stóru svæði. Það kemur reyndar fram að menn geta þá farið sem verktakar inn í eitthvert fyrirtæki, hver er skoðun hæstv. ráðherra? Telur hann þetta vera til bóta eða hafa þetta bara óbreytt eins og það er og er þá einhver brotalöm á því?