138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

umferðarlög.

553. mál
[14:13]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Engu er svo sem að bæta við það sem kom fram í fyrsta andsvari mínu við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson. Ég hef lesið og farið yfir og man það vel, vegna þess að ég sat í samgöngunefnd, þegar þetta var samþykkt inn í umferðarlög með öllum greiddum atkvæðum eins og þar var og sett í heimild til þáverandi ráðherra að útfæra það nánar í reglugerð og það stendur áfram. Ég hef líka lesið umsögn, sem kom inn frá aðila, sem þá taldist vera forsvarsmaður Bifhjólasamtaka lýðveldisins, um nauðsyn þess og ítreka það sem ég sagði áðan. Það var merkilegt að á þessum marsdögum 2007, rétt áður en þingmenn fóru heim til kosningaundirbúnings, var þetta samþykkt með öllum greiddum atkvæðum þeirra sem þar voru. Hvernig það er svo útfært skal ósagt látið og það hvort þessi nauðsynlegi hlífðarfatnaður á að vera skattlagður sem einhver hátískuvara er náttúrlega allt annað mál.