138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

umferðarlög.

553. mál
[14:18]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að geyma mér að svara spurningunni um líkamshæðina þangað til í seinni ræðu minni. Varðandi það að færa hluta af eftirliti og sektum eins og talað er um í 92. gr. til Vegagerðarinnar, jú, þá er það að sjálfsögðu sett inn. Við teljum það vera tvímælalaust til bóta. Þá léttum við ákveðnum þáttum af lögreglunni. En eins og ég gat áðan í ræðu minni um þátt lögreglunnar, þá verður hann áfram mjög mikill. Vegagerðin hefur eftirlit með ýmsum þáttum eins og hleðslu, hvernig gengið er frá farmi og hvort olían er lituð eða ekki, o.s.frv. Við skulum hafa í huga að það hefur komið fram að mörg af þessum atriðum er skynsamlegt að hafa hjá þeim aðilum sem þetta gera, hvort sem menn kalla þá B-löggur eða eitthvað annað. Ég minnist þess að þetta var mikið rætt fyrir nokkrum árum síðan. Ég man ekki nákvæmlega í tengslum við hvaða frumvarp. Ég held að reynslan af þessu sýni að það sé allt í lagi að létta á lögreglunni hvað varðar þessi atriði.