138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

umferðarlög.

553. mál
[14:20]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef minni mitt brestur ekki þá kom þetta fyrst inn og var mikið rætt í samgöngunefnd í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Gott ef þetta byrjaði ekki hjá þáverandi meiri hluta. Varðandi stjórnvaldssektir á tæki af þessari þyngd, þá eru þær vegna brota á reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, um búnað slíkra ökutækja, hleðslu ökutækja, flutning farms, öryggisráðstafanir um flutning á farþegum og akstur breiðra og þungra tækja og hárra ökutækja. Þetta skoðar Vegagerðin allt saman. Við getum sagt að þar séu sérfræðingar á ferð. Þetta er sett inn til að þeir geti lokið málinu í staðinn fyrir að stoppa og kalla svo á lögregluna. Það má segja, virðulegur forseti, að tími lögreglunnar og opinbert fé sé betur nýtt þegar hægt er að gera þetta af einum og sama aðilanum á staðnum, í staðinn fyrir að einn aðili komi, skoði og stoppi og geri athugasemdir, og verði svo að hringja í lögreglu til að framkvæma sektina. Ég held að þetta sé til mikillar hagræðingar, virðulegi forseti.