138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

umferðarlög.

553. mál
[14:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að blanda mér í umræðuna sem hæstv. ráðherra og hv. þingmaður enduðu hér áðan. Ég held að það sé mikilvægt að farið verði vel yfir ábendingarnar sem komu fram og menn skoði þetta. Ég tek hins vegar undir með hæstv. ráðherra að það er mjög mikilvægt að hafa þetta með skýrum hætti. Þá geta menn klárað málin í stað þess, eins og hæstv. ráðherra lýsti, að hringja í lögregluna til að klára mál sem liggur alveg fyrir. Við eigum að nota öll tækifæri til að einfalda hlutina sem mest.

Virðulegi forseti. Þetta er reyndar 1. umr. en mig langar í örstuttu máli að fara yfir einstaka málefni. Ég sé það fyrir mér og geri mér fulla grein fyrir því að frumvarp um umferðarlög á eftir að ræða mikið og lengi í hv. samgöngunefnd. Sennilega verður það ekki klárað fyrr en einhvern tíma í haust. Það á eftir að fara til umsagnar margra aðila og ég tel mjög gott að það skuli tekið á dagskrá núna og tími gefinn til að fara ofan í málin og ræða þau í staðinn fyrir að gera þetta með stuttum fyrirvara. Það er búið að upplýsa mig um það af formanni samgöngunefndar, hv. þm. Birni Val Gíslasyni, að menn munu gefa sér tíma til að fara mjög vandlega yfir þetta. Ég tel það mjög mikilvægt því ég reikna með að hv. samgöngunefnd fái mjög margar ábendingar vegna þessara laga.

Mig langar að halda áfram þar sem ég spurði hæstv. ráðherra um hlífðarfatnað. Ég benti á að í 75. gr. kemur fram að hæstv. ráðherra hefur heimild til að útfæra þetta, þ.e. hvaða fatnaður og klæðnaður á bifhjólum í raun og veru, er flokkaður sem verndarbúnaður. Ég tek undir orð hv. þm. Árna Johnsens um að menn verði að taka tillit til þeirra sem best þekkja þessi mál og hafa reynsluna af þeim, þ.e. bifhjólamanna. Það verður svo sannarlega fjallað um þetta í hv. samgöngunefnd en ég bendi hins vegar á, að gefnu tilefni, að ráðherra setur reglugerðina. Nefndin getur kannski komið með ábendingar en ráðherrann setur reglugerðina hvað þetta varðar. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka fullt mark á ábendingum þeirra sem best þekkja til, manna sem nota bifhjól. Þetta verði gert þannig að menn þurfi ekki, eins og hv. þingmaður lýsti áðan, einhvers konar geimverubúning til að geta keyrt um á bifhjólum.

Það er margt í þessu frumvarpi. Eins og ég sagði áðan er lagt til að hámarkshraðinn verði hækkaður upp í allt að 110 km á klst. Ég tel það að mörgu leyti skynsamlegt því við vitum að hámarkshraðinn er ekki virtur á mjög mörgum stöðum þar sem góð skilyrði eru til aksturs. Miklu skynsamlegra er að bregðast við með því að hækka hann heldur en að menn séu kannski að horfa í gegnum fingur sér og segja: „Hámarkshraðinn er 90 km á klst. en það er kannski allt í lagi að keyra á 100 km á klst. og við tökum engan undir 100 eða 105,“ eða hvernig sem það er. Það er viðtekin venja eins og við þekkjum í gegnum tíðina. Ég tel skynsamlegt að skoða þetta mjög vel.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom í andsvar við hæstv. ráðherra áðan og spurði um 43. gr. Þar segir, með leyfi forseta: „Barn sem er 150 sm eða lægra að líkamshæð má ekki vera farþegi á bifhjóli.“ Ég velti fyrir mér hvort þetta gildi bara um hæðina sem slíka eða einnig um fullorðna, hvernig þetta eiginlega sé. Ef þetta er miðað við hæðina hlýtur hún að gilda jafnt um fullorðna sem börn nema ef fullorðnir eigi að gera sér grein fyrir því, vegna aldurs og þroska, að það sé ekki skynsamlegt yfir höfuð fyrir einstaklinga sem eru 150 sentimetrar að vera á mótorhjóli sem farþegi. Það hljóta að vera rökin fyrir því ef það er meiningin. En þetta verður að sjálfsögðu tekið til umfjöllunar í nefndinni og menn geta kallað eftir nánari útskýringum.

Ég hafði mjög stuttan tíma í andsvari um málið og vil beina einu til hæstv. ráðherra. Það er hækkun aldurs vegna ökuréttinda. Nú er lagt til að hækka aldur í 18 ára. Það á að gerast á fjögurra ára tímabili, eins og hæstv. ráðherra fór yfir í ræðu sinni áðan, þ.e. 3 mánuði á hverju ári og enda síðan í 18 ára aldri. Hæstv. ráðherra sagði áðan, ef ég hef tekið rétt eftir, að hann teldi að þetta gæti hugsanlega fækkað slysum um 5–9% og haft jákvæð áhrif í þá veru.

Mig langar að velta upp þessu atriði og mun að sjálfsögðu gera það í hv. samgöngunefnd, að þegar maður fær bílpróf 17–18 ára gamall, þá er maður náttúrlega að keyra í fyrsta skipti á ævinni. Það er kannski ekki samasemmerki milli þess hvort keyrt er í fyrsta skipti á ævinni 18–19 ára eða 17–18 ára. Ég skildi hæstv. ráðherra þannig að menn hefðu skoðað þetta. Ég kalla eftir því við hæstv. ráðherra, ef hann veitir andsvör á eftir, hvort þetta væri rétt skilið hjá mér. Mun það að færa aldurinn upp í 18 ár gera það að verkum, eða er útlit fyrir það, það er aldrei hægt að fullyrða um það, að þá yrði 5–9% fækkun á slysum? Það er almennt viðurkennt að flest slysin verða á fyrsta árinu sem menn keyra bíl. Það þarf kannski ekki að vera tiltekið við 17 ára aldur frekar en 18 ára aldur. Á fyrsta árinu eftir bílpróf er mesta hættan er á því að einstaklingar lendi í óhöppum. Öll þekkjum við hörmungarnar í kringum það.

Siðan langar mig að ræða styttingu á gildistíma ökuskírteina. Það kemur fram í 58. gr. að stytta á hann í hámark 15 ár. Skírteinin eru svo sem ekki gefin frekar en annað, allt kostar þetta sitt. Ekki þarf að hvetja hæstv. ríkisstjórn til að hækka álögur og gjöld. Ég staldra samt við að þessu sé breytt í 15 ár, þ.e. að ökuskírteini gildi að hámarki í 15 ár í senn. Ef maður fær ökuskírteini 18 ára getur maður aðeins fengið það til 15 ára. Síðan breytist það við 60 ára aldur, þá fæst það til 10 ára, og svo koll af kolli. Þegar einstaklingar eru orðnir 72 ára fá þeir það til tveggja ára í senn. Það verður farið yfir þetta að sjálfsögðu því þetta finnst manni vera hálfgerð lúmsk gjaldtaka. Það er skiljanlegt að á seinni hluta ævinnar eða þegar fólk er orðið fullorðið þá þarf kannski að hafa þetta styttra. En þegar fólk er mjög ungt finnst mér sérkennilegt að þessu sé breytt í einungis í 15 ár. Við þekkjum hvernig þetta var þegar menn voru að endurnýja skírteinin á nokkurra ára fresti. Þess vegna var sú breyting gerð að menn fengu skírteini til sjötugs, ef ég man rétt, eins og er í lögunum í dag.

Í andsvari við hæstv. ráðherra áðan kom ég inn á ökunám í ökuskólum. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að í ökuskólum þurfi að vera starfandi að lágmarki fimm ökukennarar, en til að fá ökuréttindi verður að fara í ökuskóla. Ég velti því alvarlega fyrir mér og ég er mjög hugsi yfir því, hvort úti á landsbyggðinni geta kennsla hugsanlega lagst af, þar sem eru einyrkjar eða einn er að kenna, oft jafnvel í hlutastarfi til að geta sinnt því. Þá þurfa þeir sem eru að taka bílpróf í fyrsta skipti hugsanlega að koma á Stór-Reykjavíkursvæðið eða þéttbýlissvæðin í hverjum landshluta, til að ná sér í bílpróf. Það gæti orðið töluverður kostnaður. Ég reyndar skil ekki af hverju þetta þarf að vera svona því ég lít svo á að ökukennslan sé ekkert verri úti á landsbyggðinni en í Reykjavík. Ég velti fyrir mér hver orsökin er. Ef menn ætla að samræma ökukennslu, sem er ágætismarkmið og göfugt og allt í lagi með það, þá skiptir litlu hvort fimm starfa saman eða einn, því menn kenna á mismunandi hátt. Það hlýtur að þurfa að gera frekari kröfur til ökukennaranna, að þeir fari á eitthvert endurmenntunarnámskeið með vissu millibili, til að tryggja að að menn kenni á sambærilegan hátt. Ég set því spurningarmerki við þetta atriði og hef af því dálitlar áhyggjur.

Síðan vil ég taka undir með hv. þm. Árna Johnsen um hækkunina á einkanúmeri úr 25.000 kr. í 50.000 kr. Mér finnst í raun og veru að það liggi algerlega kristaltært fyrir að þetta er orðin lúxusvara miðað við ástandið í þjóðfélaginu í dag. Ég held að enginn geti deilt um það, þótt menn komi hingað og segi að menn geti reiknað inn á þetta verðlagshækkanir og þar fram eftir götunum. Ég held að með þessu sé klárlega bara einhverjir útvaldir sem hafi efni á því að fá sér þessi númer. Þetta er ekki fyrir hinn venjulega borgara því ef menn þurfa að kaupa einkaleyfisnúmer upp á 50.000 kr. í dag þurfa menn að þéna 100.000 kr. Ég tek því undir með hv. þm. Árna Johnsen, mér finnst þetta ekki skynsamlegt. Ég er ekki sannfærður um að þetta muni skila meiri skatttekjum til ríkisins, ég hef miklar efasemdir um það.

Ég hleyp hér á hundavaði yfir frumvarpið, það á eftir að ræða það vel efnislega og senda það til hv. samgöngunefndar þar sem ég á sæti og þar verður farið yfir þetta. Ég vildi þó koma inn á þessi örfáu atriði. Ég er algerlega sammála því sem hæstv. ráðherra sagði áðan, þegar hann var að svara tveimur hv. þingmönnum um svokallaða hægri beygju á rauðu ljósi, að það á að leyfa. Við gerum þetta með ákveðnum hætti í dag, við setjum afreinar þar sem menn stýra þessu á ákveðinn hátt. Að mínu viti hefur það gengið vel og ég held að það mundi létta mjög á umferðinni að gera það þannig.

Síðan sagði hæstv. ráðherra að menn hefðu slæma reynslu af því að fara of mikið til hægri og fór í svona pólitíska fimleika. Ég verð þó að segja það, virðulegi forseti, að við þessi skilyrði núna með þessa kommúnistastjórn, með þessa rauðu stjórn, þá held ég að það væri mjög skynsamlegt að leyfa mönnum að fara aðeins til hægri þótt menn þurfi auðvitað að varast að fara of langt.