138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

umferðarlög.

553. mál
[14:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég gleymdi áðan að þakka hæstv. ráðherra fyrir umfjöllun hans um frumvarpið. Ég saknaði þess — og það kemur væntanlega skýring á því á eftir — að ráðherra fór ekki nánar út í athugasemd mína varðandi líkamshæð. Ég fæ þetta ekki til að ganga upp. Þegar við horfum á loftpúða, sem eru öryggisbúnaður í bifreiðum, er eðlilegt að menn þurfi að sitja nógu hátt og slíkt og vel getur verið að eðlileg skýring sé á því hvernig hægt sé að heimfæra þetta yfir á bifhjól. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra skýri það því það að gera þetta með þessum hætti lítur út fyrir að geta orðið — ég vil bara nota þessi orð, frú forseti — algert rugl. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður mælti þetta.

Í 62. gr. frumvarpsins er talað um starfsleyfi við ökuskóla. Ég verð að taka undir þær gagnrýnisraddir sem hafa komið fram, það verður að útskýra hver hugsunin í þessu er því að ég held að þetta geti haft áhrif víða um land. Einhverjir hafa vitanlega brugðist við breytingum á ökukennslu með því að stofna ökuskóla í samstarfi en ég leyfi mér að efast um að alls staðar séu fimm ökukennarar við þá skóla. Mér þætti líka ágætt ef hæstv. ráðherra gæti upplýst mig um af hverju talan er fimm. Af hverju er hún ekki tveir? Ég held að hægt sé að gera sömu kröfur til þeirra sem eru í hlutastarfi við ökukennslu eða í fullu starfi og starfa einir eins og til skóla sem inniheldur fimm manns. Þetta snýst um að gera gæðakröfur og að þeim sé fylgt.

Í 82. gr. er m.a. rætt um nagladekk, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn er heimilt að ákveða gjald allt að 20.000 kr. vegna notkunar negldra hjólbarða á nánar tilteknum svæðum, fyrir ákveðið tímabil eða ákveðið skipti að höfðu samráði við Vegagerðina.“

Svo kemur að ráðherra geti sett reglugerð um nánari ákvæði, um úrræði, kringumstæður og annað slíkt.

Þetta finnst mér í raun alveg galið ákvæði nema kveðið sé á um það með einhverju móti að ekki sé hægt að taka þá fasta og sekta sem þurfa nauðsynlega vegna heimilisfesti, vinnu og annars að nota nagladekk lengur en mörgum finnst eðlilegt. Bíllinn minn er t.d. enn á nagladekkjum vegna þess að ég er að keyra heiðar í því kjördæmi sem ég er þingmaður fyrir, það fer kannski að vera í lagi að gera það á sumardekkjum en það hefur ekki verið fram að þessum tíma þannig að það verður að horfa á þetta.

Síðan vil ég enn og aftur, frú forseti, nefna 92. gr. varðandi stjórnvaldssektir Vegagerðarinnar á þá ökumenn sem aka ökutækjum sem eru meira en 3,5 tonn að leyfðri heildarþyngd o.s.frv. Það er verið að færa annarri stofnun en lögreglunni vald til að haga sér eins og lögregla við ákveðnar aðstæður. Hæstv. ráðherra sagði áðan að þetta gæti verið tímasparnaður eða eitthvað slíkt, en þá flettir maður aðeins til baka og skoðar 88. gr. Þar er talað um að þegar lögreglan stöðvar ökutæki sem er meira en 3,5 tonn þarf hún að jafnaði að kalla til eftirlitsmann Vegagerðarinnar, eins og kveðið er á um í 92. gr. Maður hlýtur að spyrja sig: Af hverju nær þá ekki það sama yfir lögregluna til að hún geti einfaldlega klárað málið? Af hverju þarf hún að kalla til eftirlitsmann Vegagerðarinnar? Ég fæ þetta ekki til að ganga upp og mér finnst óþarfi að búa til nýja löggu í landinu þegar kemur að þessum málum. Ég held að nær væri að styrkja lögregluna, ekki veitir af, ekki síst þegar við horfum á það að lögreglumenn eru með kjarasamninga sem hafa ekki verið kláraðir þannig að nauðsynlegt er að horfa á ýmislegt í þessu sambandi.

Hæstv. forseti. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að upplýsa okkur sem hann í rauninni gerði. Hann sá ástæðu til að taka eina grein út úr frumvarpinu, grein sem varðaði það hversu margir mættu aka í bíl til 18 ára aldurs við ákveðnar aðstæður. Við sem erum í þessum sal hljótum þá að líta svo á að allar aðrar greinar frumvarpsins séu settar fram og séu ráðherra þóknanlegar fyrst hann sá ekki ástæðu til að taka þær út þannig að mjög billegt er að segja að frumvarpið sé þannig að eðlilegt sé að samgöngunefnd breyti því eða eitthvað slíkt. Þingið hefur að sjálfsögðu heimild til þess en ljóst er að frumvarpið og þær greinar sem við sjáum þar er sett fram með fullum vilja ráðherrans. Því hljótum við að beina þeim spurningum sem við höfum fram að færa enn ákafar til hans.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Það er margt sem þarf að skoða í þessu frumvarpi en ég vildi sérstaklega vekja athygli á þessu aukna hlutverki Vegagerðarinnar í löggæslu, ósamræmi á milli 88. gr. og 92. gr., þ.e. eins og ég skil þær, nagladekkjunum, ökuskólanum og hæð farþega á bifhjólum.