138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

umferðarlög.

553. mál
[14:40]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er svo með þetta blessaða frumvarp sem hæstv. samgönguráðherra er að mæla fyrir að það varðar einhverja fjárans Evrópubíla. Margt í þessu er Evrópupilsagutl og það þarf að fara mjög grannt í saumana á því og skoða samsetninguna. Það hefur verið svolítil tilhneiging hjá ríkisstjórninni að vera á bak við tjöldin með alls konar tengingar við Evrópusambandið við lagasmíðar og það er sýnt að sumt af þessu er háð kerfi sem byggir númer eitt, tvö, þrjú, fjögur og fimm á dýru eftirlitskerfi, hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) Það er engin afsökun að þvo ekki skítinn ef hann er á borðinu [Hlátur í þingsal.] og það þarf að bregðast við því.

Við vikum áðan að hlífðarfatnaðinum. Það er mikið deilumál einmitt innan Evrópusambandsins að koma þar á göllum sem í fyrsta lagi eru bara tískufatnaður en svo dýrir að hægt væri að nota þá í geimferðir Bandaríkjamanna nánast hvert sem er. Það er margt í þessu dæmi sem er á þeim nótum, til að mynda það að reikna með því að bara hið svokallaða ríka fólk í landinu geti keypt sér einkanúmer. Sá er hér stendur átti frumkvæði að því að setja það kerfi á og þá var miðað við að fimm þúsund krónur væru greiddar, sem er einfaldlega númerakostnaðurinn og umskráningarkostnaðurinn eins og er með umskráningar á bílum með föstum númerum. Síðan fer ríkið að krækja í peninga og ekki batnaði það með núverandi hæstv. ríkisstjórn sem sér ekkert annað en hækka skatta og teygja sig ofan í vasa fólksins í landinu.

Það er nefnilega svo að einkanúmerakerfið á að vera fyrir almenning en ekki bara þá sem hafa meira umleikis, það á að vera fyrir almenning. Það var eftirminnilegt á sínum tíma þegar hæstv. ráðherra Alþýðuflokksins Jón Sigurðsson sagði: Við þurfum ekkert einkanúmerakerfi á Ísland. Við skulum bara hafa fastnúmerakerfið vegna þess að það er langbest fyrir hverfin í Evrópu. Hann var m.a. að fjalla um að þá voru númerin með A, R o.s.frv. Nei, það var best að Íslendingar hyrfu inn í Evrópu. Við erum ekkert á leiðinni inn í Evrópu, virðulegi forseti, og ef einhver heldur það í alvöru þá mun það ekki ganga eftir. Við höldum okkar striki, okkar sjálfstæði, metnaði og reisn. Okkur varðar ekkert um Evrópu nema það sem lýtur að því sem við höfum þegar gert og eru bráðnauðsynleg hvunndagsviðskipti. Ekki fyrirhyggja, forsjá eða stjórnun.

Ég vék aðeins í máli mínu áðan að sektum og sviptingum vegna ölvunaraksturs. Það er enginn að mæla því bót að menn séu drukknir undir stýri. Það er alveg klárt mál. En fimm ára svipting ökuleyfis er gríðarleg refsing, einhver mesta refsing sem til er á Íslandi og það þarf að hugsa það svolítið til enda. Hefur það skilað árangri að hafa refsitímann svo langan? Nei, það hefur ekki skilað árangri. Þá þarf að fara einhverja aðra leið sem virkar betur, virðulegi forseti, og eitthvað sem er ekki bara til að auka kerfið, kerfið og kerfið. Gott dæmi er til að mynda að Vegagerðin á að fara að skipta sér af öryggsimálum og umferðarmálum. Nánast undantekningarlaust vísar Vegagerðin málum til lögreglunnar. Þar er bara um tvíverknað að ræða Við þurfum engan tvíverknað, við þurfum að hafa þetta einfaldara, aðgengilegra og skilvirkara og eigum ekki að lúta alltaf í gras fyrir ágætum embættismönnum okkar í öllum þáttum þjóðfélagsins sem hugsa oft fyrst og fremst um það að auka vinnuna í kringum þann vettvang sem þeir vinna á. Það er ekki spurning um öryggisþáttinn, hagkvæmnina eða hag fólksins í landinu heldur spurning um það að auka atvinnu fyrir kerfisfólkið og þetta er í allt of ríkum mæli. Þetta hefur verið leynt og ljóst um langt árabil og kemur hægri eða vinstri ekkert við, þetta ágætisfólk sem oft eru ágætissérvitringar kemst upp með að koma sérviskunni inn í það sem á að gilda fyrir almennt fólk þannig að þetta eru hlutir sem þarf að hugsa um.

Svo er líka varðandi ölvunarakstur. Einn maður getur verið 24 klukkutíma að losna við áhrif alkóhóls úr líkamanum á meðan annar sem hefur neytt sama magns losnar við það á 10 klukkutímum þannig að menn sitja ekki við sama borð. Hver á að njóta vafans? Auðvitað þarf að skoða þessa hluti skynsamlega. Mér er t.d. sagt að Norðlendingar, ekki síst Siglfirðingar, séu mjög lengi að eyða alkóhóli úr líkamanum [Hlátur í þingsal.] þannig að það ætti að vera metnaður hæstv. samgönguráðherra… (Gripið fram í: En Vestmannaeyingar?) Þeir drekka ekki alkóhól. [Hlátur í þingsal.] Hér er bara gott dæmi. Þetta eru hlutir sem þarf að hugsa um. Maður setur ekki allt inn í excel, það gengur ekki. Lífið er ekki excel. Lífið er hjá venjulegu vinnandi fólki um land allt, ekki í excel-kerfi. Heitir það ekki excel? (Gripið fram í.) Excel, jú. (Gripið fram í: Evrópuexcel ...) Evrópuexcel, ég tala nú ekki um það. [Hlátur í þingsal.] Ég tala nú ekki um þegar við erum komin í Evrópuexcel.

Ein vitleysan í þessu dæmi er að hækka aldurinn til að fá ökupróf upp í 18 ár. Í hverju felst breytingin? Hún felst fyrst og fremst í árás á landsbyggðina, árás á ungt fólk sem býr úti á landi, í sveitum og dreifðum byggðum, býr heima hjá sér og sækir nám eða vinnu. Ungt fólk er hneppt í gíslingu í heilt ár. Þó að einhver aðlögun eigi að vera á fjórum til fimm árum eins og Evrópukerfið hefur boðið varðandi íslenska kvótann í hafinu þá er þetta eitthvað sem hentar okkur ekki. Þetta eru hlutir sem við þurfum að horfast í augu við.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að slys í umferðinni tengjast fyrsta árinu eftir að fólk fær ökupróf. Það kann vel að vera að það þurfi að þrengja eitthvað notkun eða eftirfylgni á fyrsta árinu eftir að fólk tekur ökupróf en það er út í hött að gera það á þennan hátt. Það er út í hött vegna þess að það er svipting á frelsi ungs fólks í landinu að þurfa að búa við þessa ánauð. Það er allt í lagi fyrir það unga fólk sem býr í 101 og fer aldrei út fyrir 101, sefur ekki einu sinni hjá fyrir austan Elliðaár. [Hlátur í þingsal.] Virðulegi forseti, þetta eru hlutir sem er ekki hægt að komast hjá því að horfa til. Þetta er árás á ungt fólk í landinu. Við eigum ekkert að ráðast á ungt fólk í landinu. Við eigum að semja við það, við eigum að vinna með því og leita eftir samstarfi um að takast á við þetta fyrsta árs vandamál þeirra sem hafa ökupróf. Ég er ekki einu sinni viss um að hærri sektir mundu leysa það. En sektir eru í mörgum þáttum þessa dæmis eins og hjá þeim sem eru sviptir ökuleyfi í fimm ár, það hlýtur að vera einhver sanngirni í því að bjóða háa sekt til að losna við eitt, tvö eða þrjú ár af sviptingu.

Það eru dæmi þess að einstaklingar sem gera út til að mynda vörubíla hafi gert þau mistök að drekka einum bjór of mikið á síðkvöldi þar sem fagnaður var og hafa tapað vinnunni og fyrirtækinu, öllu út af þessum eina bjór. Þeir hafa tapað lífsstarfi sínu, framtíð og öryggi og þeim á að refsa endalaust með því að fjölga árunum. Það eru bara þumbarar sem reka slíka pólitík. Þeir horfast ekki í augu við það að vandamál eru alltaf til staðar og til að leysa vandamál þarf að hlúa að lausn þeirra en ekki yfirkeyra allt og traðka niður í svaðið þá sem hafa gert slík mistök. Það er ekki verið að réttlæta neitt sem hefur gerst en hvaða munur ætli sé t.d. á því að svipta ökumann ökuréttindum í þrjú ár frekar en fimm ár? Ætli það skili eitthvað betri manni að svipta hann leyfinu í tvö ár til viðbótar þeim þremur sem hann sat uppi með? Auðvitað er það ekki þannig og tími er kominn til að okkar mörgu sérfræðingar fari nú að skoða hlutina út frá sjónarhóli venjulegs fólks. Það er ekki nóg hvort sem það er í öryggismálum, hagfræði, stjórnmálafræði eða öðru að hrósa sér af því einu að kunna að babla á bók. Máttur bókarinnar er mikill, en máttur reynslunnar, þekkingarinnar og venjulegs brjóstvits fólks í landinu er miklu verðmætari og miklu raunhæfari og t.d. þess vegna á ekki að standa í neinu stappi við bifhjólamenn til að stýra því hverju þeir klæðast. Þeir vita sjálfir hvað þeir þurfa til að öryggið sé í lagi, ekki einhverjir Evrópupilsagutlarar í ráðuneytunum.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum á hægri beygjuna. Það er náttúrlega ótrúleg stífni í kerfinu og á ekki bara við um núverandi stjórnvöld, heldur líka fyrri stjórnvöld að klára ekki þetta mál með hægri beygjuna. Ég skora á hæstv. samgönguráðherra, sem er eins og margir Siglfirðingar vanur því að spúla dekkin, að koma þessu á koppinn.

Af því að ég er að stikla á nokkrum smærri atriðum sem skipta þó miklu máli fyrir fólk, þá er annað sem er kerfislægt og óþolandi. Hvað er það annað en dónaskapur að sýna fólki sem er orðið sjötugt þá lítilsvirðingu að taka af því bílprófið? Hvað er það annað en dónaskapur? Aldur hækkar, starfsaldur hækkar, heilsa batnar, nei, þá skal skerða réttindin, þrengja mönnum til að vera innan girðingar hjá sér, inni á blettinum og róla í trjánum og hætta sér ekki út í umferðina í Reykjavík sem er skelfileg vegna þess að þar hafa menn ekki staðið sig í stykkinu við að koma dreifingu og eðlilegri hreyfingu á. Nei, þegar fólk er orðið sjötugt, fólk sem er hálfgerðir táningar í dag, á það að halda sig heima við sem endar með því að það verður sett undir sæng. Þessa hluti verður að hugsa um. Það er ekki hægt að setja svona arfavitlaus lög.

Virðulegi forseti. Við skulum gæta þess og ég vona að við getum fylgt því eitthvað eftir í samgöngunefnd Alþingis að fækka þessum fjölmörgu agnúum sem eru á frumvarpinu. Þó að það sé vel meint er í mörgum tilvikum allt of langt gengið og miklu máli skiptir að vel, vel, vel sé að verki staðið.