138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir spurninguna, hún er mikilvæg og eðlileg. Það er mikilvægt að byggja að nýju upp traust í samfélaginu. Ég tel að lausnin sem ég kynnti í framsöguræðunni sé viðleitni til að draga ákveðna línu í sandinn í þeim efnum og marka nýja braut sem tekur tillit til þeirra siðferðilegu álitamála sem við stöndum frammi fyrir.

Það er mikilvægt að hafa í huga í þessu tiltekna verkefni að sá nýi hluthafi sem kemur inn til liðs við verkefnið, Wellcome Trust, breskur góðgerðasjóður sem nýtur mikils álits, hefur fjárfest mikið í fyrirtækjum á sviði heilbrigðisvísinda og nú í auknum mæli í upplýsingatæknigeiranum. Hann tekur að sér að fjármagna verkefnið að fullu héðan í frá. Þannig má segja að Novator, fyrirtækið sem um er rætt og átti stóran þátt í því að verkefnið eða fyrirtækið fór í gang á sínum tíma, sé fyrst og fremst inni í ljósi forsögunnar. Þeir hafa vissulega fjármagnað verkefnið fram að þessum tíma, en munu ekki taka að sér frekari fjármögnun. Með þessum gjörning er ríkið ekki að stuðla að frekari fjárfestingum Novators í þetta verkefni, þvert á móti.

Ég lít hins vegar svo á að með þessari lausn séum við að stuðla að því að aðilinn sem sannarlega hefur brugðist trausti þjóðarinnar og gengst við þeirri ábyrgð sinni, byrji að endurgreiða með þessum gjörningi skuld sína við þjóðina.