138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn kom vissulega inn á það sem skiptir máli. Eins og kom fram í framsöguræðu hans áðan, annars ágætri, þá eru þessir nýju aðilar nefnilega andlitslausir og hv. þm. Skúli Helgason fór yfir það í ræðu sinni að ekki er vitað hvernig eignarhald þessara nýju aðila sem koma að fyrirtækinu er háttað. Tók hann sérstaklega fram í ræðu sinni að félagið, Wellcome Trust, sem hefur tekið við fjármögnuninni, er andlitslaust og ekki gefið upp hverjir eru eigendur. Er þetta það nýja Ísland sem við viljum sjá eftir hrunið? Ég spyr hv. þingmann að því. Þetta er alveg nákvæmlega sama staðan og við stöndum í gagnvart bönkunum; Íslandsbanka og Arion, við höfum ekki hugmynd um hverjir eru eigendur þeirra. Við höfum ekki hugmynd um hverjir það eru sem koma til með að eiga þetta gagnaver. Það læðist að manni sá grunur (Forseti hringir.) úr því að Björgólfur Thor er svo áfram um að afhenda eignarhaldið, (Forseti hringir.) að þarna sé einhvers staðar krosseignatengsl eða (Forseti hringir.) dulið eignarhald.