138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:34]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir framsögu sína og leyfi mér að fagna því að þetta mál sé komið úr þeim hjólförum sem það hefur verið í. Það hefur verið í biðstöðu síðan fyrir jól og ég læt það liggja milli hluta í stuttu andsvari að fara yfir niðurstöðuna. Mig langar hins vegar að horfa til framtíðar. Ég tel afar mikilvægt að verkefnið komist strax af stað og eins og hv. þingmaður sagði, er fyrirtækið ákveðinn brimbrjótur fyrir frekari starfsemi af þessu tagi sem við gætum vænst að fá hingað til lands.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort hann telji að með þessu sé hindrunum rutt úr vegi, hvort það sé eitthvað annað sem upp á stjórnvöld standi. Nú er það svo að gagnaverið er hýsingaraðili fyrir fyrirtæki sem leita að stað til að geyma gögn sín. Hvort sem það er Google, Microsoft, IBM eða hvað þau heita öll þessi fyrirtæki, hefur tíminn sem farið hefur í tafir verið nýttur til þess að greiða úr ýmsum atriðum varðandi næstu skref, mögulega samninga fyrirtækjanna til að mynda varðandi skattamál sem mér skilst að eigi sér stað í fjármálaráðuneytinu, þannig að við getum haldið áfram hindrunarlaust með þetta verkefni, að því gefnu að frumvarpið og fjárfestingarsamningurinn náist í gegn.

Ég spyr að þessu vegna þess sem hv. þingmaður talaði um, staðfestan áhuga annarra fyrirtækja (Forseti hringir.) og koma með svipaðan rekstur. Það er mjög mikilvægt að þessum spurningum verði svarað.