138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir spurningar hans og fyrirspurnir. Já, ég get svarað spurningu hans játandi. Ég tel að við eigum skilyrðislaust að nýta tækifærið sem iðnaðarnefnd fær og fjalla um almenna löggjöf um ívilnanir og flétta inn í hana umræðu og ákvæðum sem lúta að siðferðilegri ábyrgð fyrirtækja. Ég held að þar sé tækifæri sem þjóðin gerir kröfu um að við nýtum á þessum tímamótum. Ég hef reyndar óskað eftir því að Siðfræðistofnun Háskóla Íslands veiti okkur liðsinni í því verkefni. Það er grundvallaratriði í málum sem þessum að við mismunum ekki einstaklingum í íslensku atvinnulífi. Við verðum að láta freista þess hvar sem við getum að hafa almennar leikreglur sem eru óháðar einstaklingum. Þessi viðleitni er því mikilvæg.

Ég játa það hins vegar og hef minnst á það hér í þingsal að löggjafarvaldið hafi fram að þessu ekki stigið nægilega ákveðin skref í þessu efni. Ég tel að við höfum misst af tækifærum til þess að senda skýr skilaboð í þessum efnum t.d. inn í bankakerfið varðandi skuldameðferð á fyrirtækjum sem þar hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum. Sá slagur er hins vegar ekki tapaður og ég tel og vil ítreka brýningu mína til þingheims og sérstaklega viðskiptanefndarinnar, að slá hvergi af kröfunni varðandi þá mikilvægu vakt.

Á sama hátt er ég þeirrar skoðunar að þeir aðilar sem hyggja hér á rekstur gagnavera í framtíðinni, innlendir sem erlendir, eigi skilyrðislaust að njóta sömu möguleika á því að fá ívilnanir frá stjórnvöldum eins og þetta tiltekna fyrirtæki gerir.