138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. minni hluta iðnn. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hlutans í iðnaðarnefnd — sem telur sjálfa mig — um frumvarp til laga um heimild til handa iðnaðarráðherra til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

Í frumvarpinu er lagt til að Alþingi heimili iðnaðarráðherra að gera fjárfestingarsamning við Teha Investments S.A.R.L. og Novator, sem eru eigendur Verne Holdings ehf., og Verne Real Estate ehf. en félögin hyggjast reisa og reka gagnaver í Reykjanesbæ.

Ég tel ýmislegt athugavert við málið og innkomu þess í þingið. Frumvarpið var lagt fram rétt fyrir jól og var lögð áhersla á það að hálfu framkvæmdarvaldsins að það yrði afgreitt fyrir jólahlé þingsins. Nefndarmönnum í iðnaðarnefnd var tilkynnt að ekki gæfist tími til að óska eftir umsögnum eins og venja er en hægt væri að kalla gesti fyrir nefndina. Þar sem mér var mikið í mun að vanda til verks óskaði ég eftir því eftir því að fjölmargir fróðir gestir yrðu kallaðir fyrir nefndina. Hér er um nýstárlegt mál að ræða og eigandi annars þeirra fyrirtækja sem standa að Verne Holdings ehf., sem umræddur fjárfestingarsamningur er gerður við, er afar umdeildur og átti stóran eignarhlut í banka sem var í viðamikilli skoðun hjá rannsóknarnefnd Alþingis. Málið komst í fjölmiðla nokkrum dögum fyrir jól þegar iðnaðarráðherra lét hafa eftir sér að umræddur aðili yrði „þynntur út“, eins og hún orðaði það svo smekklega, og uppskar mikla hneykslan og reiði í samfélaginu. Eftir það var ljóst að fjárfestingarsamningurinn var umdeildur meðal þjóðarinnar. Hætt var við að keyra málið í gegn nokkrum dögum fyrir jól, í skjóli fjárlaga og Icesave-umræðu. Þegar þingið kom saman aftur eftir áramótin hófst vinna við frumvarpið fyrir alvöru og var það sent í hefðbundið umsagnarferli eins og venjan er. Hefur vinna nefndarinnar verið góð.

Umsagnir bárust frá fjölmörgum aðilum, en einn umsagnaraðili, Guðmundur Ragnar Guðmundsson, skar sig nokkuð úr öðrum umsögnum í umfjöllun sinni. Óskaði ég eftir því að hann kæmi fyrir nefndina en því var hafnað. Ég óskaði einnig eftir því að fulltrúi frá Siðfræðistofnun Háskólans kæmi fyrir nefndina og varð formaður nefndarinnar við því. Auk Salvarar Nordal frá Siðfræðistofnun komu fjölmargir á fund nefndarinnar svo sem Þórður Hilmarsson frá Fjárfestingarstofu, Ingvi Már Pálsson frá iðnaðarráðuneyti, Vilhjálmur Þorsteinsson frá Verne Holdings ehf. og fleiri aðilar. Svo áttum við símafundi við Birgi Má Ragnarsson, stjórnarmann í Verne Global, og Jeff Monroe, forstjóra Verne Holdings ehf.

Gagnaver tilheyra þeim flokki fjárfestinga sem kallaður er „orkufrekur iðnaður“, þótt þau noti ekki nærri jafnmikla orku og t.d. álver. Vegna hentugs loftslags og möguleika á vatnskælingu komist þau af með mun minni orkueyðslu hérlendis en annars staðar. Því vekur það athygli minni hlutans að stjórnarformaður Verne Holdings, Vilhjálmur Þorsteinsson fjárfestir, er einnig formaður stýrihóps iðnaðarráðherra um orkustefnu. Vilhjálmur situr því beggja vegna borðsins að því leyti að hann vinnur fyrir iðnaðarráðuneytið, á sama tíma og ráðherra iðnaðarmála semur við fyrirtæki þar sem hann er stjórnarformaður. Slíkt getur varla talist ásættanlegt og hlýtur vera hans á öðrum hvorum staðnum að gera hann óhæfan til að vera á hinum. (Gripið fram í.) Þá sat umræddur Vilhjálmur einnig í 9. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir síðustu alþingiskosningar svo því sé til haga haldið.

Guðmundur Ragnar Guðmundsson bendir í umsögn sinni á fjölmargar staðhæfingar í greinargerð með frumvarpinu, sem hann telur vafasamar. Hann bendir einnig á að tengingar við umheiminn í gegnum sæstrengi séu venjulegum notendum og netfyrirtækjum dýrkeyptar. Verðið sé allt að tífalt miðað við aðra umferð yfir Atlantshafið og að sá samningur sem gagnaversfélögin gerðu um aðgang að sæstrengjum muni ekki skila sér í verðlækkun til annarra fyrirtækja eða einstaklinga. Því sé um mismunun vegna fákeppni að ræða. Þá dregur hann það mjög í efa að í gagnaverinu verði raunveruleg hátæknistörf. Hann telur að umrædd störf verði mest eftirlitsstörf og ef til vill fólgin í því að taka tækjabúnað upp úr pappakössum og setja hann í rekka. Telur Guðmundur að gagnaverið í Reykjanesbæ muni ekki skila íslensku samfélagi öðru en því sem það greiðir fyrir raforku, laun, í skatta og önnur gjöld. Önnur ætluð jákvæð áhrif á samfélag, menntun og tækniþekkingu á Suðurnesjum eigi ekki við rök að styðjast. Þessari gagnrýni hefur ekki verið svarað á vettvangi nefndarinnar og formaður nefndarinnar, hv. þm. Skúli Helgason, tók fyrir að Guðmundur Ragnar kæmi fyrir nefndina, á þeim forsendum að hann væri einstaklingur en hvorki félag né fyrirtæki.

Minni hlutinn tekur undir þær áhyggjur sem koma fram í umsögn Félags um stafrænt frelsi, þar sem bent er á að löggjöf um gagnaver skorti. Ísland geti skapað sér sérstöðu með framsækinni lagasetningu um öryggi gagna og vernd tjáningarfrelsis. Fyrirhugaðir viðskiptavinir eru sagðir stórnotendur tölvukerfa á sviði fjármálaþjónustu, netmiðlunar og fjölmiðla, lífvísinda og genatækni, olíu- og gasfélög, auk mennta- og rannsóknastofnana á sviði afkastamikillar reiknitækni. Í umsögninni segir að þessir aðilar muni ekki kjósa að hýsa gögn sín í íslenskum gagnaverum nema ljóst sé fyrir fram að þeim sé tryggð fullnægjandi vernd með lögum. Undir þetta sjónarmið tók Jeff Monroe, forstjóri Verne Holdings ehf., á símafundi með nefndinni. Ég tel brýnt að taka lög sem lúta að tjáningarfrelsi og öryggi gagna til gagngerrar endurskoðunar. Ég bendi á að slíkt gæti verið þessari nýju atvinnugrein veruleg lyftistöng og skapað Íslandi tækifæri til að kynna sig sem öruggan stað fyrir gagnaver þar sem tjáningarfrelsi væri tryggt. Mun meiri arðsemi fælist í slíkri markaðssetningu og sérstöðu á heimsmælikvarða en felst í því að gera út á ódýra raforku. Í auglýsingabæklingi Verne Holdings um fyrirhugað gagnaver sem finna má á heimasíðu þeirra má sjá að lágt raforkuverð er aðalsölupunktur þeirra. Í fyrirsögn í bæklingnum stendur: „Freeze the Price of Energy from 10 to 20 years“ eða „Frystið orkuverðið í 10 til 20 ár.” Þar er talað fjálglega um ódýra orku sem Verne Holdings hefur tryggt sér hjá Landsvirkjun og býður nú viðskiptavinum sínum og er því lofað að verðið á raforkunni hækki ekki næstu 10–20 árin.

Þátttaka Björgólfs Thors Björgólfssonar, eiganda Novators, í verkefninu stóð verulega í nefndarmönnum, þar með talið mér, og bað ég um að siðfræðingur kæmi á fund nefndarinnar, til að veita nefndarmönnum leiðsögn. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var ekki komin út á þessum tíma og því ekki ljóst með hvaða hætti Björgólfur Thor kæmi fyrir í henni. Sem kunnugt er var Björgólfur Thor í hópi stærstu eigenda Landsbankans. Salvör Nordal kom á fund nefndarinnar og lýsti þeirri skoðun sinni að nefndin tæki stórkostlega siðferðilega áhættu að samþykkja frumvarpið óbreytt á meðan skýrsla nefndarinnar lægi ekki fyrir. Í kjölfar fundarins var ákveðið að bíða með afgreiðslu málsins þar til skýrslan lægi fyrir. Við útkomu hennar varð ljóst að stærstu eigendur bankanna bera umtalsverða ábyrgð á því hvernig fór, þar með talið Björgólfur Thor Björgólfsson, sem á aðild að þeim fjárfestingarsamningi sem hér um ræðir, í gegnum Novator. Umræddur aðili hefur þó ekki hlotið dóm og hefur ekki réttarstöðu grunaðs svo vitað sé. Samkvæmt þeim leikreglum sem réttarríkið setur okkur er hver maður saklaus þar til sekt hans er sönnuð. Þar með er ekki sagt að umræddur aðili eigi sjálfkrafa rétt á fjárfestingarsamningi við íslenska ríkið sem felur í sér skattaívilnanir enda teljast slíkar ívilnanir ekki til sjálfsagðra mannréttinda. Það er eðlilegt krafa í viðskiptum að hafna því að gera viðskiptasamninga við aðila sem hafa ekki reynst vel í fyrri viðskiptum. Ein meginástæðan sem gefin er til réttlætingar á þessum umrædda fjárfestingarsamningi er að hann skili erlendri fjárfestingu inn í landið. Sú ástæða var einnig gefin þegar Samson ehf., félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar og fleiri, keypti stóran hlut í Landsbankanum. Síðar kom í ljós að hluti kaupverðsins var tekinn að láni í Búnaðarbankanum. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir:

„Stærstu eigendur allra stóru bankanna fengu óeðlilega greiðan aðgang að lánsfé hjá þeim banka sem þeir áttu, að því er virðist í krafti eignarhalds síns […] Við fall Landsbankans voru Björgólfur Thor Björgólfsson og félög tengd honum stærstu skuldarar bankans. Björgólfur Guðmundsson var þriðji stærsti skuldari bankans. Samtals námu skuldbindingar þeirra við bankann vel yfir 200 milljörðum króna. Það var meira en sem nam eigin fé Landsbankasamstæðunnar. Björgólfur Thor var einnig stærsti hluthafi Straums–Burðaráss og hann var stjórnarformaður þess banka. Björgólfur Thor og Björgólfur Guðmundsson voru hvor um sig, ásamt tengdum aðilum, meðal stærstu skuldara bankans og saman mynduðu þeir stærsta lántakendahóp hans.“

Af lestri skýrslunnar má ráða að veruleg áhætta fylgi því að stunda viðskipti við umræddan aðila. Ég álít að ríkinu beri að taka siðferðilega forustu og beina sérstökum ívilnunarsamningum eingöngu til þeirra sem hafa sýnt og sannað að þeir séu traustsins verðir. (Gripið fram í.) Það er ekki hlutverk ríkisins að ákveða hvort menn sem ekki hafa verið dæmdir sekir, fái að stunda viðskipti hér á landi eða ekki. Hins vegar á ríkið ekki að taka þátt í viðskiptum nema með þeim sem eru traustsins verðir.

Björgólfur Thor Björgólfsson ritaði Alþingi og þingmönnum bréf þar sem hann segist munu afsala sér þeim ríkisstyrk sem felist í lögfestingu fjárfestingarsamningsins. Við sölu Verne Holdings ehf. eða greiðslu arðs til sín frá félaginu muni hann greiða til ríkisins þau verðmæti sem felast í gerð samningsins við lögfestingu, að teknu tilliti til eignarhlutar hans í félaginu og greiddra skatta og að hann sem fjárfestir muni ekki njóta fjárhagslegs ávinnings af fyrirgreiðslu ríkisins. Hann muni heldur ekki auka hlut sinn í félaginu og ekki taka leiðandi hlutverk við stjórn þess.

Ekki er hægt að búast við því að jafnstór fjárfesting og gagnaver Verne Holdings í Reykjanesbæ skili arði í byrjun og eðlilegt að ekki komi til arðgreiðslna fyrr en eftir þau 10 ár sem fjárfestingarsamningsins nýtur. Því má gera ráð fyrir að ekki komi til neinna arðgreiðslna fyrr en eftir að því tímabili lýkur. Minni hlutinn spurði fulltrúa iðnaðarráðuneytisins hvort yfirlýsing Björgólfs Thors eða sérákvæði um sama mál í fjárfestingarsamningnum hefði einhver áhrif eftir þau tíu ár sem fjárfestingarsamningurinn er í gildi. Taldi fulltrúi ráðuneytisins svo ekki vera. Novator og Björgólfur Thor munu því njóta allra arðgreiðslna sem koma til eftir þessi tíu ár sem samningurinn gildir og sömuleiðis alls söluhagnaðar ef eignarhlutur þeirra í Verne Holdings verður seldur að þeim tíma liðnum. Ég sé því ekki hverju nákvæmlega Björgólfur Thor hyggst afsala sér.

Á vettvangi nefndarinnar hefur því verið haldið fram að verkefnið muni gufa upp ef Novator taki ekki þátt í því. Hinn aðilinn að samningnum er fyrirtækið Teha Investments S.A.R.L. og hefur það lagt jafnmikið fjármagn í verkefnið og Novator. Ég á erfitt með að trúa því að Teha Investments S.A.R.L. sé tilbúið að tapa þeim fjármunum og leggja árar í bát. Nýr fjárfestir í verkefninu er Wellcome Trust en skilyrði fyrir aðkomu sjóðsins mun vera fjárfestingarsamningurinn. Minni hlutinn sér ekki hvaða vandkvæðum það væri bundið að Wellcome Trust tæki yfir eignarhlut Novators í Verne Holdings, sé það vilji þeirra að taka þátt í verkefninu og Novator ætli ekki að hagnast á viðskiptunum.

Ég legg því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og unnið frekar í málinu þar til viðunandi lausn er í sjónmáli. Alþingi verður að taka siðferðilega forustu og leggja línurnar um það með hvaða hætti ásættanlegt sé að viðskipti við fyrri eigendur bankanna fari fram.

Frú forseti. Meðan ég var að bíða eftir því að komast í ræðustól fékk ég fregnir af því að sérstakur saksóknari hafi farið fram á það í dag við Héraðsdóm Reykjavíkur að Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, verði úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald. Ég velti fyrir mér, og ég tek fram að ég veit ekki svarið: Erum við að semja við mann sem verður í gæsluvarðhaldi eftir stutta stund?