138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[16:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur kærlega fyrir framsöguna í þessu máli, að mæla hér fyrir munn minni hluta iðnaðarnefndar. Hún stendur að vísu ein að þessu nefndaráliti. Ég vil þakka þingmanninum sérstaklega fyrir hringamyndunina, Samfylkingar-spillinguna, sem er að finna í þessu frumvarpi því að þarna kemur fram að varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður situr sem formaður nefndar hjá iðnaðarráðuneytinu og er jafnframt hluthafi í fyrirtækinu sem veitir starfsleyfið. Ég veit ekki hvort nýja spillingin sé verri en gamla spillingin. Við vorum að tala um að uppræta ætti spillingu á þessu landi en orð úr þessu nefndaráliti hafa þegar fengið flug í fjölmiðlum og lesa má um hringamyndunina á öllum netmiðlunum nú.

Það er hálfgrátlegt eða ótrúlega skrýtið að þegar þetta frumvarp er lagt fram til 2. umr. að þá skuli fyrsti aðili bankahrunsins vera hnepptur í gæsluvarðhald í tvær vikur. Kannski eru forlögin að hjálpa okkur í þessu máli. Ég er mjög neikvæð gagnvart þessu verkefni, sérlega í ljósi þess að verið er að leggja fram rammalöggjöf um gagnaver og starfsemi gagnavera á Íslandi og ívilnanir til þeirra.

Mig langar því til að spyrja þingmanninn, Margréti Tryggvadóttur, af því að hún situr í iðnaðarnefnd: Var aldrei rætt á fundum iðnaðarnefndar að þessi sérstaki sérsamningur sem verið er að gera við Björgólf Thor og fyrirtæki tengd honum yrði lagður til hliðar og um hann og gagnaverið á Reykjanesi mundu gilda þau lög sem stendur til að setja hér á vorþingi um gagnaver?