138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[16:36]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum vissulega umdeilt mál en ég vil fagna þeim áfanga sem við náum í því, að við skulum koma því áfram, vegna þess að ekkert er okkur mikilvægara við þær erfiðu aðstæður sem eru í samfélaginu í dag en að koma hjólum atvinnulífsins í gang og auka þá verðmætasköpun sem byggist á nýtingu innlendra náttúruauðlinda og skapar útflutning og eykur hagvöxt. Í raun er grundvallaratriði að þetta gerist í samfélagi okkar til að hér verði vænlegt að nýju. Málið hefur að mínu mati tafist of mikið. Hér er verið að reyna að svara ákveðnum grundvallarspurningum og að mínu viti hafa þau svör eða þær niðurstöður sem úr þeirri vinnu hafa komið ekki verið að fullu leyti ásættanleg fyrir Alþingi.

Ekki verður deilt um það að byggja upp rekstur sem þennan á Íslandi. Hagkvæmni í rekstri gagnavera hér á landi er klárlega mjög mikil og í raun sérstakt að slíkar hugmyndir hafi ekki komið upp fyrr og orðið að veruleika. Langstærstur hluti rekstrarkostnaðar gagnavera er raforkunotkun, allt að 60%. Hér er reiknað með því að umtalsverður sparnaður geti orðið á þeim vettvangi og að rafmagnskostnaður geti verið umtalsvert lægri en í þeim löndum sem eru nálægt okkur, fyrst og fremst út af því hvað sparast vegna kælingar. Að því leyti getur rekstrarumhverfið orðið mjög hagkvæmt.

Annað sem hentar okkur mjög í uppbyggingu á þessum iðnaði er að hann getur í raun verið staðsettur hvar sem er á landinu. Þannig er hægt að setja þessa starfsemi niður á svæðum þar sem meiri þörf er á uppbyggingu atvinnutækifæra og koma þannig til móts við þau svæði sem hafa kannski farið hvað verst út úr byggðaþróun síðustu ára. Vinnustaðirnir eru ekkert endilega mjög fjölmennir, það fer eftir því hversu mikil vinnsla fer fram á þeim og hvort um einfaldar gagnageymslur er að ræða eða hvort einhver önnur vinnsla fer fram samhliða, sem er enn áhugaverðara. Þarna eru í boði vel launuð störf, þannig að þeir sem fá störf munu skila ágætlega til samfélagsins. Þessu fylgir lítil eða engin mengun en það þarf að virkja og þar er hængur á eins og í svo mörgu sem ræður ferð í þeirri mikilvægu atvinnuuppbyggingu sem fram undan er.

Á föstudag var fundur í iðnaðarnefnd þar sem til fundar við nefndina komu helstu aðilar sem standa í viðræðum við erlenda fjárfesta, þ.e. erlenda aðila sem hafa áhuga á því að koma og fjárfesta í íslensku atvinnulífi og byggja hér upp. Vandamál þeirra fulltrúa okkar sem standa í slíkum viðræðum eru nákvæmlega þau sömu og eru á borði ríkisstjórnarinnar og komast ekkert áfram þar. Það er í fyrsta lagi orkuafhending, ekki er hægt að segja þessum áhugasömu erlendu aðilum hvenær þeir geti fengið orku. Umhverfismat er langt ferli og annað er okkur erfitt, t.d. eru ákveðin virðisaukaskattsmál gagnvart þessum gagnaverum óafgreidd í fjármálaráðuneytinu. Beðið er eftir að því ljúki. Síðan þarf skýrari línur varðandi ívilnanir.

Iðnaðarráðherra hæstv. hefur nýlega lagt fram frumvarp varðandi almennar ívilnanir fyrir þau fyrirtæki sem hyggjast byggja upp starfsemi hér. Ég held að það sé að mörgu leyti mjög gott skref og tek undir með hv. formanni iðnaðarnefndar, Skúla Helgasyni, að það beri að reyna að hraða vinnslu þess þannig að við skýrum leikreglurnar sem best fyrir þá sem hingað vilja koma.

Þá kem ég aftur að þessu verkefni suður með sjó, uppbyggingu gagnavers Verne Holdings og þeim ágreiningi sem er um það mál, sérstaklega vegna eignaraðildar Björgólfs Thors eða fyrirtækisins Novators sem er á hans vegum. Ef frumvarpið sem hæstv. iðnaðarráðherra lagði hér fram í síðustu viku væri þegar afgreitt af Alþingi væri þetta mál einfaldlega ekki á okkar borði. Þá þyrfti Alþingi ekki að fjalla um þetta mál og setja einhver skilyrði. Alþingi hefur ekki sett sér almennar reglur um það hvernig það ætlar að meðhöndla fyrirtæki sem eru að hluta til eða öllu leyti í eigu þeirra sem stóðu fremst í útrásinni og eiga kannski mestan þátt í því hvernig fór í efnahagshruninu. Alþingi hefur ekki sett sér neinar vinnureglur eða skilyrði um það hvernig eigi að vinna gagnvart slíkum fyrirtækjum. Í hv. iðnaðarnefnd eru við afgreiðslu á þessu máli í raun sett þau skilyrði að Björgólfur Thor eða fyrirtæki hans verði að falla frá arðgreiðslum sem myndast af þessum skatthlunnindum. Á meðan Alþingi hefur ekki sett sér almennar vinnureglur um það hvernig eigi að meðhöndla mál sem þessi verða menn hreinlega að taka afstöðu til þess hvort þeir vilji yfir höfuð eiga viðskipti við þessi fyrirtæki, vilji setja reglur sem ívilna þeim fyrirtækjum sem eru í hlutaeigu eða fullri eigu þeirra sem voru tengdir útrásinni.

Í samfélaginu eru önnur fyrirtæki sem gegna gríðarlega veigamiklu hlutverki og starfa í raun í skjóli ríkis og fjármálastofnana og eru klárlega í eigu þeirra sem fremst stóðu í útrásinni og stærstan þátt eiga í því hversu alvarlegt efnahagshrun okkar var. Stærsta smásöluverslanakeðja landsins starfar við slíkar aðstæður, sem og eitt stærsta flutningafyrirtæki landsins og ein stærsta fjölmiðlasamsteypa landsins. Ég held að mjög mikilvægt sé að við setjum okkur einhverjar reglur áður en við tökum afstöðu eins og hér er gert.

Ég vil á sama tíma segja að ég hef fullan skilning á gagnrýni í þá átt að Alþingi skuli leggja hér fram frumvarp sem ívilnar sérstaklega fyrirtæki í eigu Björgólfs Thors eða annarra þeirra sem að útrásinni stóðu og áttu stóran þátt í efnahagshruni okkar. Ég hef fullan skilning á því. Mér er einnig mjög ógeðfellt að taka þátt í slíku og get tekið undir marga fyrirvara sem hér hafa komið fram í þeim efnum. Mér finnst vera mikill tvískinnungur í því að í þessu tilfelli ætlar Novator að skila þeim hluta arðgreiðslna sem rekja má til skattaívilnana. Ég styð þetta frumvarp með fyrirvara um þetta atriði. Ég styð að þetta fari í gegn á grundvelli þeirra staðreynda sem fyrir framan mig liggja.

Eins og ég kom inn á í upphafi ræðu minnar er í mínum huga í öllu tilliti mikilvægast fyrir íslenskt samfélag að hjól atvinnulífsins komist af stað. Við verðum að auka verðmætasköpun og hagvöxt og það er bara ein leið til þess. Grundvöllur þess að ég styð þetta mál er fyrst og fremst sá að þetta verkefni er komið af stað. Þetta er verkefni sem þarf ekki frekari undirbúning og strax á morgun er hægt að halda áfram þaðan sem frá var horfið. Þetta skapar atvinnu strax. Það er líka stutt í það að fyrsti áfanginn verði tilbúinn og skapi hér útflutningsverðmæti og frekari atvinnutækifæri, ásamt áframhaldandi uppbyggingu. Þetta er lykilatriði.

Ef við berum saman það sem hefur verið rætt, af hverju við semjum ekki við aðra áhugasama aðila um uppbyggingu gagnavera annars staðar á landinu, þá er það ekki komið jafnlangt. Ég vil beita öllu því slökkviliði sem ég get náð í núna til að komast áfram.

Af minni hálfu hjálpar það til við þessa ákvörðun hversu lítil eignaraðild Novators er í þessu tilfelli. Fyrir liggur að eftir innkomu nýrra aðila verður hún 21,8%. Það liggur einnig fyrir að Novator mun ekki hafa tækifæri til að taka þátt í nauðsynlegri hlutafjáraukningu á næstu mánuðum þannig að leiða má líkur að því að eignarhlutur fyrirtækisins fari niður í 5–7%. Í ljósi lítils eignarhluta þessa umdeilda aðila — sem ég ítreka að mér er ógeðfellt að eiga einhver samskipti við, sérstaklega á meðan málin hafa ekki verið kláruð fyrir dómstólum — og þeirra ríku hagsmuna sem Suðurnesin, landið og við höfum af því að atvinnuuppbygging fari í gang er það mat mitt að við eigum að greiða þessu verkefni leið. Ég tel mjög mikilvægt að gera það strax.

Wellcome Trust er viðurkenndur fjárfestingarsjóður í Bretlandi og önnur fyrirtæki sem verið er að tala við í dag og eru að huga að því að kaupa þjónustu af þessu fyrirtæki eru jafnvel á meðal stærstu notenda gagnavera í heiminum. Þetta eru alþjóðlega viðurkennd fyrirtæki og það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að út á við sjái fjárfestar að fyrirtæki eru tilbúin að byggja hér upp. Þetta eru fyrirtæki sem eru tilbúin til að veðja á okkur í framtíðinni. Svona virtir aðilar munu mögulega draga fána sinn hér að húni. Traust á Íslandi sem landi til að byggja upp atvinnutækifæri í framtíðinni mun aukast.

Ég held og vona að þetta sé fyrsta skrefið í átt að því að snúa hjólum og snúa málum hér eitthvað við, svo við förum að komast eitthvað áfram. Það var mjög uppbyggjandi og hvetjandi að heyra þá aðila sem komu á fund iðnaðarnefndar á föstudaginn fara yfir þau fjölmörgu tækifæri sem fyrir hendi eru. Tækifærin liggja í raun á borðinu hjá okkur. Við þurfum ekki að gera annað en að vinna úr þessu, en innlendir aðilar, þau ráðuneyti og þær stofnanir sem í hlut eiga geta ekki gefið svör. Það er auðvitað stjórnvalda að byggja það upp.

Eitt af því sem hefur verið gagnrýnt í þeim efnum og er ágætt að nefna hér er umhverfismat og það ferli sem við vinnum eftir þar. Það hefur verið gagnrýnt m.a. af aðilum vinnumarkaðarins og það var ályktað alveg sérstaklega á síðasta þingi ASÍ að það yrði að einfalda þetta ferli, við yrðum að einfalda þá vinnu til að geta verið samkeppnisfær og brugðist betur við tækifærum. Það kom fram á þessum fundi á föstudaginn að við værum mun seinni í slíkri vinnu heldur en margar þjóðir Evrópu sem við værum að keppa við. Það kom alveg sérstaklega fram. Á sama degi og verið er að tala um þetta í iðnaðarnefnd leggur hæstv. umhverfisráðherra fram frumvarp um að lengja umþóttunarmöguleika ráðuneytisins til að fjalla um sameiginlegt umhverfismat úr tveimur mánuðum í sex. (Gripið fram í: Rétt.) Fjallar um framlengingu úr tveimur mánuðum í þrjá með mögulegri framlengingu í aðra þrjá mánuði.

Þetta er allur vilji þessarar ríkisstjórnar til að reyna að koma málum áfram. Það er áfram verið að reyna, svolítið í skjóli myrkurs, að draga upp girðingar sem mögulega geta stoppað þessa framrás. Það gengur ekki, virðulegi forseti. Það gengur ekki lengur. Við verðum að hafa ríkari hagsmuni að leiðarljósi í þessu, þá hagsmuni sem felast í því að nýta skynsamlega orku í landinu, koma því færibandi í gang þannig að það geti gengið með jöfnum hraða næstu árin til heilla fyrir íslenska þjóð. Um það snýst málið.

Ákveðið óbragð er að þurfa að afgreiða þetta með þessum hætti og ég hef miklar efasemdir um að sú leið sem Alþingi er að fara sé réttlætanleg, ég tel að við séum komin út á mjög hála braut þegar menn í meiri hlutanum eru jafnvel farnir að fella dóma áður en dómstólar hafa fjallað um málin. Við erum jú löggjafinn og skulum fara varlega þegar kemur að þessu. Mitt mat er byggt á öðrum forsendum. Mitt mat er byggt á þeim ríku hagsmunum sem felast í því að fara af stað með þetta verkefni sem allra fyrst.