138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[16:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Hann upplýsti að hann hefði mikið óbragð í munni yfir þessu frumvarpi. Það er örlítið vægar til orða tekið en ég vil gera, því ég fæ hreinlega hroll út af þessu frumvarpi. Með því er tekinn annan snúningur á þjóðinni í skjóli löggjafans. Það er verið að færa ákveðin gæði frá þjóðinni, sem aðrir gætu notað, til þessa einstaklings sem skuldar hundruð milljarða. Finnst hv. þingmanni þetta í lagi? Á þjóðin ekki að njóta vafans í þessu máli í stað þess að þetta frumvarp verði að lögum og svo kemur bara í ljós hvernig viðkomandi aðilar standa sig? Við þekkjum ekki þau félög sem að þessu fyrirtæki standa. Þau eru andlitslaus og ekki fæst uppgefið hverjir eru eigendur þeirra. Við erum með andlitslausa banka starfandi í landinu. Það eru einhverjir vogunarsjóðir. Spurningar liggja frammi fyrir hæstv. viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra um hverjir eigi bankana en þingmenn fá engin svör. Af hverju erum við að leika okkur með fjöregg þjóðarinnar með þessum hætti, að afhenda þetta andlitslausum fyrirtækjum?

Nú fer ríkisstjórnin fram með þetta mál af mikilli hörku og það er greinilega tengt Samfylkingunni, í umræðunum hefur komið fram að það eru samfylkingarhagsmunir að færa yfir í þetta eignarhald. Er hv. þm. Jón Gunnarsson (Gripið fram í.) ekki sammála mér um að þjóðin eigi að nota njóta vafans í uppbyggingunni sem hér er fram undan? (Gripið fram í.)