138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[16:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það er þjóðin sem á að njóta vafans. Grunnurinn að minni skoðun í þessu máli er kannski að ég læt ekki hagsmuni fyrirtækis útrásarvíkings, sem fara mjög þverrandi í þessu fyrirtæki, þvælast fyrir mér heldur hef ég hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi við þetta verkefni sem er komið vel á leið og mun gegna miklu hlutverki, ekki síst á því svæði þar sem atvinnuleysið á landinu er hvað mest. Ég læt það ráða niðurstöðu minni.

Ég ítreka að við þurfum að koma okkur upp vinnureglum um hvernig við ætlum að meðhöndla fyrirtæki sem tengjast þessum útrásarvíkingum. Ég tek alveg undir að það er með ákveðið óbragð í munni sem maður gengur frá þessum hlutum, vitandi að þeir eru innan borðs í þessu verkefni þó að litlu leyti sé. Ég er þó ákveðinn í því að láta þessa aðila ekki eyðileggja meira fyrir þjóðinni en orðið er. Ég ætla ekki að láta þá gera það. Þarna er tækifæri sem mun skapa okkur mikil verðmæti og mikla atvinnu. Að þessu fyrirtæki koma aðilar sem njóta trausts í Bretlandi, t.d. þessi sjóður, Wellcome Trust. Það er ljóst að það eru aðilar í viðræðum við þetta fyrirtæki sem eru einhverjir þekktustu notendur svona þjónustu í heiminum, fyrirtæki á borð við Microsoft og fleiri. Það hangir margt (Forseti hringir.) á þessu verkefni og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt í öllu tilliti að það geti haldið áfram.