138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi fjárfestingarsamningur kemur frá iðnaðarráðuneytinu í gegnum ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkana, til þingsins í lok síðasta árs. Það átti að reyna að afgreiða þetta mál með hraði, til þess að halda því áfram. Það komu upp mjög ríkar efasemdir um hvort það væri réttlætanlegt, vegna eignaraðildar Novators, eða Björgólfs Thors, í fyrirtækinu. Það var skiljanlegt. Það komu upp raddir í samfélaginu sem gerðu alvarlegar athugasemdir við þetta. Og það er mjög skiljanlegt. Ég hef mikinn skilning á því öllu.

Breytingin á samningnum núna er auðvitað ekkert annað en þvinguð aðgerð. Það er búið að semja um þetta og ganga frá þessu. Þetta atriði er þvingað fram. Þarna finnst mér Alþingi vera komið út á hálan ís, þegar það vinnur þannig. Við eigum að taka afstöðu til málsins eins og það var. Ég hef fullan skilning á þeirri skoðun að því hefði verið hafnað algjörlega. En ég mat aðrar aðstæður og aðrar ástæður ríkari, (Forseti hringir.) til þess að geta greitt því atkvæði.