138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:08]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni Jóni Gunnarssyni fyrir framsögu hans í dag um þetta efni. Ég get tekið undir mörg orð sem hann lét fjalla í pontu um þetta sérstaka mál. Það eru margir sem hafa goldið varhuga við aðkomu títtnefnds viðskiptamanns, Björgólfs Thors, að þessu máli. Hér er vitaskuld meiri hagsmunir að leiðarljósi en minni og þess vegna hefur iðnaðarnefnd afgreitt málið með þeim hætti, sem nú liggur fyrir Alþingi.

Mig langar að beina eftirfarandi spurningu til hv. þingmanns: Getum við tekið almennt á málum útrásarvíkinganna sem hraðast fóru fram í þenslu viðskiptalífsins? Munum við ekki alltaf þurfa að taka sértækt á þeim málum? Munu almennar reglur ná yfir þessa menn?