138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:12]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Aftur er stórt spurt, virðulegi forseti. Sé ég fyrir mér að stærsti smásölurekstur landsins verði áfram í eigu þeirra sem voru fremstir í flokki? Eða eitt stærsta skipafélags landsins eða ein stærsta fjölmiðlasamsteypa landsins? Nei, ég á ekki von á því, ég sé það ekki fyrir mér þannig. Ég vil sjá þetta með öðrum hætti. Mér finnst ógeðfellt að hugsa til þess að það verði hlutskipti okkar, að þessir aðilar muni stýra svo ríkum þáttum í samfélagi okkar í framtíðinni. Það er þannig. Ég vil snúa mér af alefli að byggja upp íslenskt samfélag.

Ég sagði áðan frá fundi í iðnaðarnefnd á föstudaginn var, sem var mjög áhugaverður. Stjórnvöld þurfa að taka til hendinni. Ég veit að mörg öfl innan ríkisstjórnarflokkanna vilja gera það. Það er kannski þar sem við þurfum að taka til hendinni, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) og koma þeim öllum frá í ríkisstjórninni sem standa í vegi fyrir þeirri þróun sem þarf að verða.