138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er ég ekki sammála því hvernig hv. þingmaður lagði út af siðferði andspænis raunsæi. Ég held að (Gripið fram í.) það sé ekki hægt að túlka orð mín þannig að raunsæir menn geti ekki verið heiðarlegir og að þeir sem telji sig hafa betri siðferðiskennd en aðrir séu heiðarlegri. Ég held að þetta snúist ekki um það. Eflaust hefði ég átt að velja eitthvert annað orð en raunsæi. Það sem ég átti að sjálfsögðu við er að siðferðisvitund okkur segir að það sé mjög slæmt — og það er ekki ákjósanlegt — að gera samninga þar sem þessir aðilar koma að þó að í litlum mæli sé. En ef það getur verið til þess að skapa mikið af störfum og koma hér landinu af stað aftur, já, í því ljósi er hugsanlega hægt að gefa einhvers staðar afslátt.

Ég get ekki svarað spurningunni um það hvenær þjóð eigi að slá af siðferðiskröfum. Ég hef ekkert umboð til þess að tala fyrir þjóðina sem slíka. Það hefur enginn okkar þrátt fyrir að oft sé sagt sem svo að þjóðin vilji ekki eða að þjóðin vilji eitt eða annað. Við höfum ekkert umboð til þess að tala fyrir heila þjóð með þeim hætti. Ég get því ekki svarað því, hv. þingmaður, hvenær þjóðin eigi að slá af siðferðilegum kröfum. Nógu erfitt er að hugsa sjálfur um hvenær og hvort maður eigi að gera það.

Önnur spurningin um hvort við eigum að taka í litlafingurinn ef við viljum ekki taka í alla höndina (Gripið fram í: Rétta.) eða rétta litlafingurinn. Svarið er að sjálfsögðu nei. Svarið er nei. (Forseti hringir.) Þarna er að sjálfsögðu vandamálið sem maður stendur frammi fyrir.