138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:31]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svarið en er litlu nær. Ég gleðst yfir því, ef ég skil hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson rétt, að hann finni það í hjarta sínu að hér sé stórt siðferðilegt vandamál á ferðinni. Eftir stendur spurningin sem við verðum að svara hvert fyrir sig og sem þjóð — við komumst ekki hjá því sem erum þingmenn og fulltrúar þjóðarinnar að geta svarað því — hvenær við sláum af siðferðilegum kröfum. Hvaða mörk drögum við? Höfum við einhver siðferðismörk yfirleitt? Hvaða siðferðiskröfur gerum við til annarra? En okkar sjálfra?

Ég fyrir mína parta harma mjög að þessi tiltekni maður skuli vera aðili að þessu gagnaveri, sem annars væri hið besta mál að drífa upp sem allra fyrst. Það að gefa einhvern siðferðilegan afslátt er bara ekki til í mínum huga, hvorki gagnvart þessum aðila né öðrum, vegna þess að annaðhvort er maður hrein mey eða ekki.