138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessar líffræðilegu upplýsingar sem hann deildi með okkur. Ég held að ég og hv. þingmaður séum að mörgu leyti sammála um þennan siðferðilega þátt. Kannski greinir okkur einhvers staðar aðeins á en þegar við tölum um siðferði þjóðar verðum við vitanlega að horfa á alla myndina og hvaða siðferðiskröfur eru gerðar.

Ég ætla ekki að halda því fram að einhver sé með betra siðferði en annar í dag. Hins vegar er alveg ljóst t.d. af þeim tölvupóstum sem við í iðnaðarnefnd höfum fengið frá atvinnulausu fólki á Suðurnesjum að þar er ekki endilega spurt um siðferði heldur hreinlega afkomu og hvort fólk hafi vinnu, geti brauðfætt sig og slíkt. Þar með er ég ekki að segja að það fólk hafi minni siðferðisvitund en við hin, alls ekki, en þegar fólk er komið á þann stað að það hefur ekki atvinnu en sér fram á verkefni, vinnu og lausnir er eðlilegt að það reyni að þrýsta á til að bjarga sér. Það er þó ekki endilega það sem mótar þessa afstöðu heldur einfaldlega að þegar við vegum og metum kostina og gallana, það að búa til þau störf sem þarna eru til framtíðar á móti því að þarna er nefndur á nafn, og tengist þessu vissulega, einn af okkar verstu bófum sem hefur farið illa með þjóðina, þá hljótum við að vega og meta þessa hagsmuni. Nákvæmlega þetta togast á í manni.