138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með þessari afgreiðslu, eða með því að fara með þetta mál með þessum hætti í gegnum þingið, leggur meiri hlutinn í nefndinni að sjálfsögðu til að þriðja leiðin sé farin, þ.e. að frumvarpinu sé ekki hafnað eins og það er lagt fram en ekki heldur hleypt óbreyttu í gegn, ef það má orða það þannig, eins og þetta kom frá framkvæmdarvaldinu heldur sé reynt að lappa upp á málið og gera það ásættanlegt. Síðan er það þessi togstreita, hvenær er það ásættanlegt? Hvenær er það „í lagi“ og hvenær ekki?

Ég tek reyndar undir það sem kom fram hjá hv. þingmanni að það er óþolandi að löggjafinn skuli standa álengdar og horfa á hlutina renna fram hjá sér og hafa í rauninni ekkert um það að segja hvort stórir leikendur fái kannski 15% forkaupsrétt í félögum sínum, vitandi að stórir leikendur reka aðra fjölmiðlasamsteypuna á landinu, eða reyndar báðar þessar svokölluðu frjálsu samsteypur, o.s.frv. Þetta er vitanlega óþolandi staða.

Við erum að mínu mati hér að senda ákveðin skilaboð inn í framtíðina um það hvernig við hyggjumst taka á aðilum sem tengjast hruninu og ætla sér áfram inn í viðskiptalífið og vilja njóta einhverrar fyrirgreiðslu af hálfu ríkisins. Við erum kannski vanmáttug gagnvart því sem gerist í hinum almenna geira eða einkageiranum eins og staðan er í dag meðan við höfum ekki þau tæki sem við viljum hafa til þess að hafa áhrif. Þess vegna þurfum við að vanda okkur mjög vel við þetta mál og senda skýr skilaboð. Ef við getum gert þau enn skýrari en við gerum tillögu um hér (Forseti hringir.) fagna ég því en ég veit ekki hversu mikið lengra við komumst, því miður.