138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:40]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ. Í frumvarpinu er lagt til að iðnaðarráðherra fái heimild til að gera fjárfestingarsamning við Verne Holdings ehf., Verne Real Estate ehf. og eigendur þeirra um að þau reisi og reki gagnaver í Reykjanesbæ. Í samningnum er verkefnið skilgreint. Það er kveðið á um tímalengd og mælt fyrir um undanþágur frá lagaákvæðum og skattlagningu og um lögsögu íslenskra dómstóla. Þær undanþágur sem mælt er fyrir um eru þessar:

að tekjuskattshlutfall byrji í 15% og fari síðan stighækkandi á samningstímanum;

að ákveðnar sérreglur gildi um fyrningu eigna;

að undanþága sé frá iðnaðarmálagjaldi og markaðsgjaldi;

að sérreglur gildi um stimpilgjald og skipulagsgjald;

að það gildi sérreglur um útreikning á fasteignaskatti;

að það sé ákveðin undanþága frá rafmagnsöryggisgjaldi.

Þessar ívilnanir eða undanþágur eru metnar á 3,4 millj. bandaríkjadala eða 0,47% af heildarfjárfestingarkostnaði, sem er vel innan þeirra marka sem Eftirlitsstofnun EFTA setur og talsvert lægra hlutfall en áður hefur verið veitt í svipuðum fjárfestingarsamningum. Hér er einnig um að ræða mun skemmri tíma eða einungis 10 ár.

Í frumvarpinu er einungis verið að heimila iðnaðarráðherra að semja við ákveðna aðila um að reisa og reka gagnaver í Reykjanesbæ en ekki eru settar almennar reglur um starfsemi gagnavera. Í nefndinni var rætt um að hugsanlega þyrfti að skoða reglur um persónuvernd og í því tilfelli þurfum við að fylgjast mjög vel með alþjóðlegri þróun í þessum málaflokki með hugsanlega lagasetningu um starfsemi gagnavera almennt í huga.

Þessi fjárfestingarsamningur er sá fyrsti sem gerður er um uppbyggingu gagnavers á Íslandi. Margir hafa lagt mikla vinnu í það verkefni að fá hingað aðila til að byggja og reka gagnaver og sú vinna hefur staðið yfir í mörg ár. Sveitarfélög, einkaaðilar, íslenskir og erlendir, opinberar stofnanir og ríkið hafa lagt mikla áherslu á að slík starfsemi gæti skapað mörg störf og góðar tekjur. Nú liggur þessi ísbrjótssamningur fyrir og það er gleðilegt en það fylgir böggull skammrifi. Einn af hluthöfunum í Verne Holdings er Novator og aðaleigandi þess síðarnefnda var einn af aðalleikurunum í leikritinu Íslenska viðskiptabóluundrið, m.a. einn af aðaleigendum Landsbanka Íslands. Það þarf ekki að fjölyrða um það tjón sem leikendur í fyrrgreindum farsa ollu íslensku samfélagi og íslenskum almenningi. Því var ljóst að þessi aðkoma mundi valda þessu góða verkefni tjóni. Siðferðiskennd íslenskra þegna tekur eðlilega kollhnís þegar til stendur að íslenska ríkið ívilni á einhvern hátt slíkum hrunleikara. Þó var mikil bót í máli þegar fjárfestingarsjóðurinn Wellcome Trust kom inn í verkefnið, varð stærsti hluthafinn og minnkaði þannig hlut Novators í verkefninu úr 39,7% í 21,8%. Það var til bóta en ekki nægjanlegt.

Þær staðreyndir að verkefnið er ísbrjótur í gagnaverum og tilheyrandi hátækniiðnaði á Íslandi, atvinnuleysi á Reykjanesi er skelfilegt, 200 störf mundu verða til á framkvæmdatímanum, 100 störf þegar rekstur er hafinn og 330 afleidd störf gáfu nefndinni þó ekki leyfi til þess að hætta við verkefnið og gefast upp. Siðferðileg grunnhugsun um skyldur gagnvart íslensku samfélagi sem getur ekki samþykkt að opinbert ívilnunarfé renni í vasa stórs áhættuaðila í efnahagshruninu annars vegar og skyldur okkar gagnvart uppbyggingu íslensks efnahagslífs hins vegar dansa þarna línudans. Þessi lausn er að mínu mati ásættanleg aðferð í þessum línudansi en hún er sett fram í samkomulagi við Björgólf Thor sem afsalar sér ríkisstyrk og heitir að auka ekki hlut sinn í félaginu eða leiða það á nokkurn hátt. Grunnhugsunin um að siðferðileg viðmið eigi að taka inn í allar okkar ákvarðanir komst til skila um leið og við tókum stórt skref í uppbyggingu íslensks atvinnulífs, þótt ég verði að viðurkenna að ég vona að ofurtrú á gagnaver muni ekki hefta frumkvæði og nýsköpun á nokkurn hátt.