138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:45]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að annaðhvort væri maður hrein mey eða ekki. Að sjálfsögðu láðist mér að taka fram að það gildir líka að annað hvort er maður hreinn sveinn eða ekki.

Fyrir flestum manneskjum á fyrir að liggja að missa meydóminn og sveindóminn einhvern tíma á ævinni en vonandi við ánægjulegar aðstæður. Við þessar aðstæður er auðugur maður með lítinn orðstír, og sem nýtur lítillar virðingar, beinlínis að nauðga nærveru sinni upp á okkur. Það sem mér finnst viðbjóðslegast í þessu máli er að hann skuli ekki draga sig út úr þessu, þegjandi og hljóðalaust.

Ég hef siðferðilega ekki úr háum söðli að detta sjálfur. Ég er daglega í viðskiptum við banka og kaupið mitt fer inn á bankareikning í banka sem reyndist vera glæpafélag. Það er nýbúið að setja aðalbankastjórann í tugthúsið í dag. Ef ég kaupi bensín á bílinn, þarf ég að versla við fyrirtæki sem hafa verið dæmd fyrir samráð. Ef ég kaupi í matinn, versla ég við menn sem — þótt þeir séu ekki komnir í fangelsi — eru sennilega eða vonandi á leiðinni í fangelsi.

Ég vil deila því með hv. þm. Jónínu Rós, að siðferðilegar kröfur í þessu tiltekna máli eru svona svakalegar, vegna þess að þarna er verið að nauðga okkur. Við gefum ekki eftir af siðferðilegum kröfum heldur er verið að nauðga okkur til þess. Það er það sem er svakalegt í þessu máli.