138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:47]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar vangaveltur og hlakka til að eiga við hann umræður um skilgreiningu á hreinni mey og hreinum sveini á öðrum vettvangi. Það getur stundum verið spurning um aðstæður.

Ég tel að við hv. þm. Þráinn Bertelsson séum algjörlega sammála um að við eigum að byggja siðferðilegar kröfur inn í allt okkar kerfi. Kannski erum við ákveðnir ísbrjótar í þessu samhengi hér og nú. En sama hversu erfiðar aðstæðurnar eru og hversu mikið óbragð við höfum í munninum, þá setjum við að minnsta kosti siðferðilegt mat inn í þetta mál.

Hvað varðar á hvern hátt við gerum það og hvort einhver sé þar nauðugur viljugur; auðvitað setjum við þetta inn nauðug viljug. Þarna eru kannski fleiri nauðugir viljugir. Ég held að við eigum að standa fast við allar okkar siðferðilegu kröfur. Við vitum innst inni hvað er rétt og hvað er rangt, við það eigum við að standa.

Ég lagði oft fyrir nemendur mína svokallaðar siðferðilegar klípusögur, þar sem þau áttu að æfa sig í að finna rök með og á móti. Við fengum ekki skírteini upp á það, þegar við fæddumst, hvort aðstæður sem við lentum í, væru annaðhvort hvítar eða svartar og það væri annaðhvort gott eða vont. Við þurfum alltaf að taka erfiðar ákvarðanir.

Ég tel mig vera búna að eiga mjög gott samtal við sjálfa mig og ýmsa aðra í þessu máli, og byggi ákvörðun mína á því.