138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:51]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega ekkert mál að svara svona spurningum á tveim mínútum, það rennur bara í gegn.

Mig langar að benda á það sem hv. þingmaður og formaður iðnaðarnefndar benti á, að við ræðum þetta, að minnsta kosti ívilnanirnar, í tengslum við rammalöggjöfina. Varðandi spurninguna um hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í málaflokknum í heild sinni, þá legg ég til að við tölum ekki um ríkisstjórnina heldur um þingið. Við erum með þingmannanefnd sem skoðar rannsóknarskýrsluna. Ég bind miklar vonir við að út úr þeirri vinnu komi ákveðin niðurstaða sem við getum nýtt okkur til þess að byggja upp ný vinnubrögð. Það er ljóst að mikið er deilt á vinnubrögð Alþingis og vinnubrögð framkvæmdarvaldsins. Það þurfum við að taka allt í gegn.

Ég hefði óskað þess, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson orðaði það áðan, að Björgólfur Thor hefði séð sóma sinn, ef segja má sem svo, í að draga sig til baka. Ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög erfitt að setja öðrum siðferðismörk, eða að aðrir geri það. Mér finnst í raun og veru að hver og einn verði að eiga samtal við samvisku sína og draga ályktanir af því. Ég get haft ákveðnar skoðanir á því hver ég vildi helst að niðurstaðan væri og ég get gjarnan komið því á framfæri.