138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[18:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það þurfti ekki hrun til að ég ræddi um lífeyri í lífeyrissjóðunum. Síðan ég kom á þing fyrir 15 árum hef ég ítrekað flutt breytingartillögur, sem hafa verið kolfelldar, um að sjóðfélagar kjósi stjórnir lífeyrissjóðanna og sérstaklega um að þeir eigi þá. Það mátti ekki samþykkja.

Varðandi að hér sé verið að framlengja arm ríkisvaldsins vil ég lesa upp úr frumvarpinu, með leyfi frú forseta:

„Eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins er heimilt að leita aðstoðar lögreglu við eftirlitið þegar slíkt þykir nauðsynlegt.“

Það er ekkert annað. Það á bara að beita lögreglunni við þetta eftirlit. Nú má vel vera að þetta sé allt saman nauðsynlegt, að við séum að láta meiri hagsmuni fyrir minni og ganga svona langt til þess að ná í einhverja aðra hagsmuni. Ég benti þó á miklu einfaldari leið í nefndinni, en það var ekki hlustað á hana, um að atvinnurekendum bæri að tilkynna inn þá starfsmenn sem vinna hjá þeim, hversu lengi þeir vinna o.s.frv., að þessir eftirlitsfulltrúar gætu hitt einhvern mann og ekki þyrfti skírteini til. Mér finnst nefnilega mjög niðurlægjandi að vissir hópar séu merktir sérstaklega því það minnir okkur á mjög dökkan blett í sögu mannkynsins, Davíðsstjörnuna.

Ég hef því mjög miklar efasemdir um þetta frumvarp en mér sýnist að meiri hlutinn fallist á það og vilji bara samþykkja það eins og það er. Þá koma eflaust upp vandamál eftir einhver ár ef verkafólk vill stofna verkalýðsfélag en getur það ekki vegna þess að það er búið að búa til opinber verkalýðsfélög.