138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

landflutningalög.

58. mál
[18:19]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til landflutningalaga frá samgöngunefnd. Við 2. umr. málsins hér á Alþingi var talsverð umræða um 27. gr. frumvarpsins þar sem annars vegar er kveðið á um móttöku og afhendingu vöru og hins vegar greiðsluskyldu móttakanda við afhendingu á vöru. Nefndin tók þetta mál fyrir á fundum sínum og komst að þeirri niðurstöðu að gera tillögur um breytingar á þessu ákvæði.

Nefndin leggur til að lokinni nánari umfjöllun að frestur skv. 1. mgr. 27. gr. verði fimm dagar í stað þriggja, þ.e. að móttakandi skuli taka við vöru á ákvörðunarstað eins fljótt og verða má, eins og segir í frumvarpinu, en eigi síðar en fimm dögum eftir að honum er kunnugt um að vara sé tilbúin til afhendingar. Í annan stað að 3. og 4. mgr. greinarinnar falli brott, þar sem kveðið er á um greiðslu móttakanda við afhendingu vöru. Færð hafa verið fram þau rök fyrir síðarnefndu tillögunni að óeðlilegt sé að móttakandi geti samtímis hafnað greiðsluskyldu og móttekið vöru.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Við 27. gr. a. Í stað orðsins „þremur“ í 1. mgr. komi: fimm.

b. 3. og 4. mgr. falli brott.

2. Við 33. gr. Fyrri málsliður orðist svo: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Undir þetta álit skrifa sá sem hér stendur, hv. þm. Róbert Marshall, hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, hv. þm. Anna Margrét Guðjónsdóttir og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, eða allir mættir nefndarmenn í samgöngunefnd á þessum fundi. Að þessum breytingum orðnum er full samstaða í samgöngunefnd um frumvarp til landflutninga, eins og reyndar flest önnur mál sem samgöngunefnd afgreiðir.