138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

gjaldþrotaskipti og fyrning kröfuréttinda.

449. mál
[18:43]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem um ræðir og flutningsmaður hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur greint frá snertir atriði sem hefur lengi verið í umræðunni á vettvangi fullnusturéttarfarsins um hvernig eigi að ljúka eða ná niðurstöðu eftir gjaldþrot gagnvart einstaklingum. Þær hremmingar sem hér urðu haustið 2008 og það sem við höfum verið að vinna okkur út úr á síðustu mánuðum sýnir svo glögglega að gjaldþrotarétturinn er ekki hugsaður þannig að fjöldamargar íslenskar fjölskyldur verði settar til gjaldþrotaskipta. Gjaldþrotarétturinn var ekki hugsaður þannig að heil þjóð lenti í slíkum hremmingum sem hér hafa orðið.

Ég get tekið undir með hv. þm. Lilju Mósesdóttur að nauðsynlegt sé að skoða breytingar á gjaldþrotaréttinum með það fyrir augum að reyna að ná niðurstöðu þannig að menn geti byrjað upp á nýtt. Ég þarf hins vegar að fara nánar yfir þetta mál. Breytingartillögur af hálfu ríkisstjórnarinnar á vettvangi gjaldþrotaréttarins eru til meðferðar núna í allsherjarnefnd og eftir því sem mér hefur skilist er að einhverju leyti verið að koma til móts við þær athugasemdir sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gert í sambandi við íslenskt gjaldþrotaréttarfar í áliti sínu til íslenskra stjórnvalda.

Mig langar að varpa þeirri spurningu til hv. þm. Lilju Mósesdóttur hvort það hafi verið sérstök fyrirmynd að þeirri tillögu sem þarna er á ferðinni. Við vitum auðvitað að í Bandaríkjunum er allt annað réttarfar en hér en þar er svokölluð núllstilling, ef maður getur orðað það svo, mun einfaldari en í réttarkerfi okkar hér á Íslandi og á Norðurlöndunum. Ég spyr hv. þingmann að því hvort litið hafi verið sérstaklega til t.d. Danmerkur og Noregs þar sem réttarkerfið er mjög líkt okkar þegar þessi tillaga var smíðuð.