138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

störf þingsins.

[12:05]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Ég veit að forseti þingsins getur ekki svarað fyrirspurn úr forsetastóli svo mig langar að leggja fram fyrirspurn til þess sem málið varðar. Mér er sama hvort svar berst á þessum fundi eða við fyrstu hentugleika og svo sem frá hvaða aðila það svar berst.

Sú spurning sem leitar á mig ákaflega um þessar mundir tengist hinu svokallaða máli níumenninganna, þ.e. í búsáhaldabyltingunni voru áheyrendur fjarlægðir af áheyrendapöllum þingsins og níu af þessum áheyrendum voru handteknir af lögreglu. Ég veit ekki með hvaða hætti, hvort það var af handahófi eða að yfirveguðu ráði eða hvernig á því stóð en alla vega hafa verið lagðar fram ákærur sem geta varðað allt að 16 ára fangelsi á hendur níu manns.

Spurning mín að þessu sinni beinist að því hvort Alþingi sem stofnun, Alþingi sjálft eða skrifstofa Alþingis, hefur haft einhver afskipti, frumkvæði eða hefur aðhafst eitthvað sem hefur haft áhrif í þessa átt, leitt til þessarar málssóknar. Hafi svo verið, hvaða aðgerðir hafa það verið, bréf eða fyrirmæli eða óskir?