138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

störf þingsins.

[12:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur áðan um að það sé nauðsynlegt að þetta mál verði skýrt til hlítar. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort í orðum hv. þingmanns og núverandi formanns þingflokks Samfylkingarinnar hafi falist yfirlýsing um vantraust á formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands.

Í viðtali því sem hv. þm. Ólöf Nordal vitnaði í áðan í Fréttablaðinu í dag segir formaður bankaráðs Seðlabankans m.a. þegar hún er spurð hvernig hún meti stöðu sína eftir þetta mál og samband við forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég var aðstoðarmaður hennar um tíma og mér þykir hún afar skelegg og staðföst. Ég lít á þetta eins og hverja aðra uppákomu í samskiptum tveggja einstaklinga sem eru að vinna vinnuna sína.“

Hvað þýðir þetta? Það þýðir að sjálfsögðu það að þessir tveir einstaklingar ræddu þetta mál, skiptust á skoðunum og annar hvor þessara einstaklinga fór væntanlega með skilaboð af þessum fundi um það hvernig ætti að bregðast við og slíkt. „Ég lít á þetta eins og hverja aðra uppákomu í samskiptum tveggja einstaklinga“ — þarna er formaður bankaráðs Seðlabankans að tala um sjálfa sig og forsætisráðherra Íslands. Þannig er málið. Svo stöndum við hér og veltum því fyrir okkur hver er að segja satt og hver er að segja ósatt. Þessar tvær ágætu konur þurfa einfaldlega að koma báðar fram og skýra hvor þeirra fer með rétt mál því að þetta var klárlega rætt í samskiptum þeirra.

Frú forseti. Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að í ljósi þeirra umræðna sem hafa verið um Alþingi og eru um ríkisstjórn og stjórnmálalífið í heild, hljótum við að fara að velta því fyrir okkur hvort ekki sé eðlilegt að þingmenn og ráðherrar sæki sér endurnýjað umboð til þjóðarinnar. Það hlýtur að vera komið að því að menn velti (Forseti hringir.) því fyrir sér hvort þörf sé á að kjósa innan árs eða eitthvað slíkt til að menn fái endurnýjað umboð og til þess þá að kjósendur geti hafnað þeim sem þeir telja að eigi ekki að vera hér.