138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

störf þingsins.

[12:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að hugur minn er staddur hjá fólkinu sem á um sárt að binda á gosstöðvunum eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á. En mig langar til að koma upp til að bera blak af aðila sem starfar í samfélagi okkar og eftir því sem ég þekki til má ekki vamm sitt vita. Hér er verið að bera á Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmann sakir úr þessum ræðustól, það er verið að vega að æru hennar og það er verið að saka hana um að hún segi ósatt. Nú er orðið ljóst að þetta mál þarf að upplýsa. Vísað hefur verið í blaðaviðtal við þessa persónu sem birtist í morgun. Nú verður sú manneskja að koma fram og hreinsa mannorð sitt og skýra frá því hvernig samskiptum hennar við hæstv. forsætisráðherra var háttað. Það er alvarlegt mál að þingmenn þurfi að standa hér og verja aðila úti í samfélaginu gagnvart rógburði sem þingmenn bera á borð. Þetta lítur hreinlega þannig út fyrir mér að verið sé að fórna drottningu fyrir peð. Þetta er hæstaréttarlögmaður sem hefur alltaf sýnt það í verkum sínum að hún beri virðingu fyrir starfi sínu. Þetta er alvarlegt mál en við skulum fagna því í dag að þessum aðila er greinilega ekki sætt lengur undir þeim ásökunum sem eru bornar á hana. Ég reikna með því að þessi mál skýrist í dag og það verði upplýst að þetta loforð sem stóð til að efna er komið beint úr forsætisráðuneytinu.