138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

störf þingsins.

[12:30]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Fyrst af öllu ætla ég að frábiðja mér túlkunarfræði hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur sem hefur sérhæft sig í því í sinni þingmennsku að bera nafngreinda menn þungum sökum héðan úr ræðustól Alþingis. Það er enginn sómi að svona málflutningi, frú forseti, enginn. (VigH: Það sem þú sagðir …) Ég sagði áðan að það væri ljóst að ekki væri öllum spurningum svarað í þessu máli. Hæstv. forsætisráðherra svaraði spurningunum þrisvar sinnum í gær. Þeim er hins vegar ekki svarað af hálfu formanns bankaráðs Seðlabankans. Það var það sem ég benti á, ég viðurkenndi og benti á þá einföldu staðreynd að það er flokkurinn minn, Samfylkingin sem ber ábyrgð á skipan Láru V. Júlíusdóttur sem formanns bankaráðsins. Þess vegna er þetta grafalvarlegt mál og ég bið hv. þingmann, frú forseti, að fara ekki enn og aftur í sömu stellingarnar, halda ekki sömu vondu ræðurnar um réttarríkið og tiltekna einstaklinga, í algerum skorti sínum á málefnalegri hugsun og málefnalegri afstöðu.