138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[12:40]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í gær kom fram í umræðu um þetta frumvarp að margir höfðu einhverjar siðferðilegar áhyggjur af þessu. Ég vil lýsa því yfir að ég lít þannig á málið að ég er ákaflega hlynntur atvinnuuppbyggingu hér á landi og einkum og sér í lagi á Suðurnesjum þar sem ástandið er verst. Ég er reiðubúinn til að fara yfir á siðferðilega grátt svæði til að bjarga málum. En að gera samninga við aðila sem eru búnir að plata okkur einu sinni alveg rosalega og hafa engin störf skapað nema hjá sérstökum saksóknara og í skilanefnd Landsbankans, að kalla þá ógæfu yfir fólkið á Suðurnesjum vil ég ekki. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)