138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[12:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er ekki auðveld ákvörðun sem við stöndum hér frammi fyrir. Við erum annars vegar að tala um siðferðileg sjónarmið og hins vegar um peninga og störf. Ég tel að við stöndum núna að mörgu leyti frammi fyrir sambærilegu siðferðilegu mati og forverar okkar stóðu frammi fyrir við sölu Landsbankans um það hverja við viljum eiga viðskipti við. Þá var efasemdum ýtt til hliðar og það fór sem fór. Ég vil því að við skoðum betur tillögur minni hlutans um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar og sjá hvort ekki sé einhver möguleiki á því að fá aðra aðila að þessu verkefni. Ég tel málið ekki fullreynt þannig að ég mun ekki geta greitt þessu máli atkvæði mitt því að það er, eins og sagt var hérna áðan, ekki sama hvaðan gott kemur.