138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[12:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hyggst í þessari atkvæðagreiðslu hér við 2. umr. samþykkja þetta mál eins og það liggur fyrir. Ég áskil hins vegar mér þann rétt að koma með aðra skoðun inn í þingsal við 3. umr. og atkvæðagreiðslu því að ég veit að nefndin mun fara yfir málið á ný. Það eru og hafa verið uppi hugmyndir um hvort hægt sé að breyta þessu máli með ákveðnum hætti og vonandi ræðum við það í nefndinni.

Afstaða mín ræðst fyrst og fremst af því að ég tel að þetta verkefni sé gríðarlega mikilvægt fyrir atvinnuuppbyggingu á Íslandi, ekki bara á Suðurnesjum, heldur á Íslandi öllu. Eftir því sem þeir aðilar sem komið hafa til okkar frá stofnunum ríkisvaldsins og þeir sem vinna hér að fjárfestingu, hafa sagt við okkur, horfa margir til þess hvernig þetta mál verður leyst af hálfu Alþingis og Íslendinga. Af þessum ástæðum greiði ég (Forseti hringir.) þessari tillögu atkvæði mitt núna en áskil mér rétt til að endurskoða hug minn fyrir 3. umr.