138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[12:52]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Vegna þess að búið er að stilla málum hér upp þannig að við sem erum fylgjandi því að gagnaverið rísi með þessum hætti á Suðurnesjum séum siðlaus og hin sem eru á móti því eða sitja hjá séu ekki siðlaus, sé ég mig tilknúinn til að gera grein fyrir atkvæði mínu. Ég er fylgjandi þessu. Ég vil sjá þetta gagnaver rísa. Mér finnst iðnaðarnefnd hafa unnið gott starf í því að reyna að ná niðurstöðu í þessu erfiða máli. Ég lít svo á að umræddur aðili muni ekki njóta góðs af skattaívilnunum og lausnin feli það í sér. Því tel ég mig standa á ágætum siðferðilegum grunni þegar ég greiði atkvæði með þessu. Kannski þurfum við að grípa til fleiri svona lausna vegna þess að við munum örugglega sjá það gerast að fleiri aðilar sem eiga peninga og fleiri þátttakendur í hruninu muni vilja taka þátt í fjárfestingum á Íslandi. Þá er þetta kannski (Forseti hringir.) módel að lausn.