138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

skýrsla sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda um formlega samvinnu landanna á sviði sjávarútvegs.

313. mál
[13:07]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Tillagan um skýrslu sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda um formlega samvinnu landanna á sviði sjávarútvegs kemur frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.

Undir þetta nefndarálit skrifa fulltrúar í utanríkismálanefnd og eru allir sammála.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um sameiginlega skýrslu sjávarútvegsráðherra landanna þar sem fram komi nákvæmt yfirlit yfir þá formlegu samvinnu sem er á milli Vestur-Norðurlanda bæði hvað varðar rannsóknir á lifandi auðlindum sjávar og fiskveiðistjórnina, ekki síst á sameiginlegum fiskstofnum.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.