138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

samkomulag milli Íslands og Grænlands um skipti á útsendum sendifulltrúum.

316. mál
[13:10]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Enn var utanríkismálanefnd einhuga um afgreiðslu þessa nefndarálits en með þessari tillögu er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórn Grænlands um að löndin skiptist á útsendum sendifulltrúum. Færeyjar og Grænland eru jafnframt hvött til þess að skiptast á opinberum sendifulltrúum.

Nefndin styður markmið tillögunnar um að styrkja tengslin á milli vestnorrænu landanna en tekur jafnframt undir þau sjónarmið sem fram komu í umsögn utanríkisráðuneytisins um að hæpið sé að opna nýjar sendiskrifstofur, eins og tillagan felur í sér, við þær efnahagsaðstæður sem nú ríkja. Þess vegna leggur nefndin til breytingu á þingsályktunartillögunni í þá veru að Alþingi skori á ríkisstjórnina að kanna grundvöll þess að gera samkomulag við landsstjórn Grænlands um að löndin skiptist á útsendum sendifulltrúum.

Ég tel rétt að taka fram að nefndin telur, eins og ég sagði áður við fyrra nefndarálit, mjög brýnt að efla öll þessi samskipti á milli ríkjanna en telur jafnframt að taka verði tillit til þeirra erfiðu efnahagsaðstæðna sem ríkja á Íslandi.