138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

forgangsmál ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.

[13:53]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með málshefjanda, hv. þm. Eygló Harðardóttur, þegar hv. þingmaður segir að það sé að vissu leyti erfitt að vera umhverfissinni. Sumt er erfitt, annað er hins vegar auðvelt. Ég held t.d. að við séum líklega á barmi þess að vakna upp í samgöngumálum. Núna er átakið „Hjólað í vinnuna“ og hér talaði hæstv. umhverfisráðherra um tækifæri í samgöngumálum, þar væru sóknarfæri okkar og ég tek undir það.

Ég nefni sérstaklega hjólreiðar. Það er eiginlega með ólíkindum hvað við Íslendingar höfum verið lítið á reiðhjólum. Danir eru búnir að ná því markmiði að meira en helmingur Dana hjólar í vinnuna. Það er alveg frábær árangur. Við gætum hugsanlega náð þessu líka. Mjög margir búa á höfuðborgarsvæðinu, það er stutt að fara og það er miklu minna mál að hjóla en menn halda. Það er auðvelt þannig að ég vona að við séum á barmi þess að taka það upp í auknum mæli að fara að hjóla. Þar held ég að umhverfisráðuneytið geti lagt umræðunni verulega mikið lið.

Ég tek líka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfismálin eru svolítið málaflokkur áætlana. Ég minni á tillögu sem sú er hér stendur hefur flutt í þinginu um landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu. Ég tel að miðhálendið sé stórkostlega merkilegt, við höfum mikla sérstöðu, 42% af Íslandi eru flokkuð sem ósnortin víðerni. Þetta þurfum við að vernda með einhverjum hætti og þar kemur til þeirrar áætlunar sem ég (Forseti hringir.) nefni hér.