138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

forgangsmál ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.

[13:55]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda,. hv. þm. Eygló Harðardóttur, fyrir að vekja máls á þessum málaflokki sem er sannarlega mikilvægur. Ég er enginn öfgamaður nema ef kalla má öfgamennsku að vilja af einlægni skila landinu og þeim gæðum sem okkur eru falin til varðveislu aftur til afkomenda minna í því standi sem ég tók við þeim og helst betri. Í því felst engin öfgamennska af minni hálfu, ég frábið mér slíka umræðu.

Varðandi það hvernig við getum svo stigið næstu skref í að fá þjóðina til að hugsa á umhverfisvænan hátt vil ég ekki endilega taka upp skattlagningu, eins og var nefnt áðan. Ég vil miklu frekar ívilna þeim sem stíga skref í þá átt að vernda náttúruna með breytni sinni. Það má t.d. hugsa sér að ívilna þeim sem velja að fjárfesta í umhverfisvænni bílategund þegar þeir skipta um bifreið. Það má hugsa sér að sveitarfélög og samfélagið í heild sinni hugsi fyrir því í skipulagningu borga og þéttbýlis að það sé raunverulega hægt að nota umhverfisvæna ferðamáta, gera íbúunum raunverulega kleift að taka þau skref í samgöngum.

Í sambandi við samgöngurnar finnst mér að við eigum líka að tala um strandsiglingar. Af hverju setjum við alla okkar flutninga á vegina þegar við vitum að það er miklu umhverfisvænna að sigla með vörurnar? Af hverju flytjum við vörur að utan (Forseti hringir.) þó að vitum að það sé umhverfisvænna að framleiða þær hérna heima? Við þurfum að hugleiða öll þessi mál.