138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

forgangsmál ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.

[13:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu. Ég fagna jafnframt því sem kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra, að það beri að líta á málin í einhvers konar heildarjafnvægi. Ef við gerum það og skoðum samhengi atvinnulífs og náttúru á Íslandi miðað við einingu af gjaldeyristekjum mengar ferðaþjónustan mest, sjávarútvegur næstmest og áliðnaður er í þriðja sæti. Þetta eru þrjár helstu útflutningsgreinar okkar.

Ef umhverfissinnar vilja vera samkvæmir sjálfum sér leggja þeir áherslu á málin í þessari röð, þ.e. berjast fyrst og fremst á móti ferðaþjónustu, í öðru lagi fiskveiðum og í þriðja lagi áliðnaði. Einhvern veginn hefur þetta haft endaskipti eins og við sáum mjög greinilega þegar komið var í veg fyrir að álver yrði reist á Bakka sem þáverandi hæstv. umhverfisráðherra gerði, Þórunn Sveinbjarnardóttir, sú hin sama og tók formann bankaráðs Seðlabankans af lífi hér fyrr í dag.

Það sem ég legg áherslu á er að ég tek undir orð hæstv. umhverfisráðherra, sem ég met mikils, það verður að skoða hlutina í einhvers konar heildarjafnvægi og heildarmynd. Það má ekki fara í hlutina með kreddum, það verður að nota þá þekkingu og kunnáttu sem við höfum í þessum málum til að reyna að lágmarka mengun hér á landi.