138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

forgangsmál ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.

[14:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og tek undir með hæstv. umhverfisráðherra, það hefði verið gott að hafa meiri tíma til að ræða þennan gífurlega viðamikla málaflokk og sérstaklega þar sem við erum að tala um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þannig að við biðjum kannski um klukkutíma næst.

Það sem mér hefur hins vegar fundist einkenna umræðu um umhverfismál á Íslandi er náttúruvernd, við höfum ekki horft heildstætt á umhverfismálin, það sem er nær, jafnvel inni á heimilum hjá okkur, það sem er síðan aðeins fjær og það sem er enn þá lengra frá okkur. Við gerum okkur vel grein fyrir því að meiri hluti Íslendinga býr á höfuðborgarsvæðinu en við höfum mjög mikið einbeitt okkur að náttúruvernd sem er jafnvel mjög langt í burtu frá okkur, því sem kemur mjög lítið við okkar daglega líf.

Þegar ég flutti heim frá Svíþjóð fyrir 15 árum sló það mig mjög hvað umræðan og lífsmáti fólks í umhverfismálum var stutt á veg komið miðað við það sem ég kynntist í Svíþjóð. Þegar ég bjó þar voru sett lög sem skylduðu heimili til að flokka sorp. Það var töluverð umræða um það og mörgum fannst þetta ekkert sérstaklega sanngjarnt, en lögin voru sett og við fórum öll að flokka. Það sem meira var, maður þurfti síðan ekki að keyra bæinn endilangan til að koma þessu flokkaða sorpi á staði þar sem það var sótt til okkar.

Að lokum hvet ég okkur til að hugsa um umhverfismál á breiðari grunni, að við förum frá þessari takmörkuðu umræðu um að ekki megi virkja þetta eða ekki hitt og að við förum að tala um það hvernig það snertir okkur hvert og eitt. Bent var á að við erum með samgönguáætlunina í þinginu og ég óska sérstaklega eftir því að við séum óhrædd við að setja okkur raunveruleg töluleg markmið, að við tölum ekki bara um að stefnt skuli að og leiða leitað heldur segjum: Þetta er það sem við ætlum að gera. Það gerðum við varðandi vistvænu innkaupin og ég tel að við getum líka sett okkur skýr og töluleg markmið um samgönguáætlunina. Við eigum að geta dregið úr útblæstri í sjávarútveginum og farið í gegnum allar (Forseti hringir.) atvinnugreinarnar. Ég hvet ráðherrann líka sérstaklega til að skoða þingsályktunartillögu sem liggur fyrir þinginu sem hv. þm. Skúli Helgason (Forseti hringir.) er 1. flutningsmaður að og helst að samþykkja hana.