138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

532. mál
[14:18]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er lítill metnaður og lítil reynsla á notkun íslenska fánans af þeirri einföldu ástæðu að það hefur verið bannað að nota hann. Það eru ótrúlega forpokaðar reglur um notkun íslenska fánans. Íslenski fáninn er virðing og metnaður íslensku þjóðarinnar og það ætti að vera kappsmál hverri einustu fjölskyldu að geta flaggað á góðviðrisdögum og tyllidögum. En reglurnar eru slíkar að fólk er slegið niður. Fram kom hjá hæstv. forsætisráðherra að liðka verði til varðandi vörumerkingarnar. Það er mjög af hinu góða. Besta dæmið er vörumerking á íslensku grænmeti þar sem íslensku fánalitirnir eru á borða þar sem stendur „Íslenskt“. Það er trygging fyrir því að menn kaupi íslenskt grænmeti, ekki grænmeti flutt inn frá Austur-Evrópu, Asíu eða Afríku, frá svæðum sem eru full af alls kyns hormónum og aukaefnum í ræktuninni. Svo er sett í þetta íslenskt vatn og kallað íslenskt. Virðuleg fyrirtæki eins og Sláturfélag Suðurlands og fleiri sem framleiða frábæra vöru kynna þetta sem íslenska framleiðslu. Þetta er auðvitað blekking, þetta er fals og það á ekki að blekkja fólk á þennan hátt. Þetta er besta dæmið um hvað það skiptir miklu máli að halda nýtingu á íslenska fánanum og láta hann stimpla ákveðna hluti sem tryggir gæðin.

Virðulegi forseti. Ég vil hvetja forsætisráðherra til að breyta nú reglum varðandi fánanotkunina á þann hátt að það sé leyfilegt að flagga á Íslandi nætur og daga allan ársins hring. Það er leyfilegt í sumum löndum og í sumum stórum ríkjum. Það skiptir auðvitað miklu máli að í reglunum fylgi að fáninn verður að vera í lagi, fáninn verður að vera heill. Fáninn á ekki að vera í tjasli eða í hálfgerðum druslum, fáninn verður að vera í lagi. Það ætti að vera grundvallaratriði. Hvort fáninn er við hún á nóttu eða degi skiptir auðvitað engu máli, ekki kvartar fáninn. Þetta ætti að vera mikið kappsmál vegna þess að þetta mundi auðvelda frekari notkun íslenska fánans. Ef við ætlum að halda uppi, verja og sækja sjálfstæði Íslendinga, hvort sem er í tungu, menningu, atvinnulífi eða öðru, verður fáninn eitt af lykilatriðunum, eins og fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra, sem vill liðka til varðandi vörumerkingar af nákvæmlega þeirri ástæðu að það styrki íslenska markaði. Það styrkir möguleika Íslendinga og þess vegna á það ekki að vera neitt feimnismál að íslenski fáninn sé við hún nætur og daga. Farin hefur verið millileið í þessu með því að leyfa svokallaða hornfána sem mega vera uppi hvar sem er og hvenær sem er. Þeir geta verið uppi vetrarnætur og sumarnætur og hvenær sem er. Það er ágætt út af fyrir sig en það á ekki að vera með neinn tvískinnung í þessu. Það á að leyfa notkun íslenska fánans með þeirri reglu að hann sé í lagi, það sé grunnatriðið. Það held ég að sé mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga á tímum fjölþjóðahyggju að rækta garðinn okkar á þennan hátt.

Um það leyti sem Grænlendingar fengu sinn fána fyrir um það bil 30 árum spurði ég gamlan veiðimann hvort hann væri ekki glaður að fá fánann. Nei, sagði veiðimaðurinn. Mér dugir minn tóbaksklútur. Það er sjónarmið út af fyrir sig. En við erum ekki með fánann til þess. Við erum með fána af því að við viljum að hann setji svip á umhverfið, að hann skapi metnað og setji hugsun í gang sem tengist íslenskum hljómi. Þess vegna er mjög mikilvægt að liðka til með fánareglurnar. Ég er ekki að segja að leyfa að gera hvað sem er úr fánanum. Það segir sig sjálft. Menn hafa reynt að fara með hann yfir í tískuklæðnað og slíkt og er reyndar erfitt að komast hjá því. En það á ekki að vera það sem menn miða við heldur að fáninn sé uppi og að honum sé sýnd virðing. Það skiptir engu máli hvort það er að nóttu eða degi. Það er bara gamaldags og úrelt hugsun, reyndar dönsk hugsun en Danir hafa nú breytt afstöðu sinni. Þetta er hlutur sem ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að taka upp, að taka nú af skarið því að það er bara skemmtilegt að gera þetta svona, það er jákvætt og það er skemmtilegt.

Ég er einn af þeim mönnum sem flagga á flestum fánadögum og oftar en það eru ekki margir sem gera það. Ég var að velta því fyrir mér 1. maí að í einu fjölbýlasta hverfi borgarinnar, Breiðholti, voru örfáir íslenskir fánar við hún þann dag. Það er enginn stíll yfir því, það er stílleysi. Það er bara linka og ræfildómur vegna þess að reglur stjórnvalda eru of strangar. Hvað er fallegra í umhverfinu en blaktandi íslenskur fáni við hún? Hann er fallegri en tré, hann er fallegri en byggingar. Af hverju eigum við ekki að rækta þennan þátt meira? Ég tel að það skipti miklu máli að opna þetta um leið og tryggt er að vörumerkingarnar með íslensku fánalitunum eru íslensk vara en ekki eitthvert svindl innflutt í gámum utan úr heimi á allt öðrum ræktunargrunni en við viljum bendla íslenska fánann við. Það þekkja það allir þegar þeir fara að kaupa grænmeti í búðum, þeir sjá á augabragði hvort tómatarnir eru íslenskir eða erlendir af því að þeir íslensku eru merktir með fánalitunum. Það sparar líka tíma. Það eykur líka hugsun um bæði að styrkja íslenskt og tryggja að menn kaupi hráefni sem er það besta sem völ er á.

Þetta er merkilegt mál sem forsætisráðherra mælir nú fyrir og ég vona að það gangi í þá átt að opna um leið fyrir meiri notkun á íslenska fánanum fyrir venjulega Íslendinga, ekki bara þá sem eru í viðskiptum.