138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

bólusetning gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini.

498. mál
[14:48]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um bólusetningu gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini. Sú þingsályktunartillaga gengur út á það að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að hefja undirbúning að bólusetningu allra 12 ára stúlkna gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini.

Um miðjan mars sl. spurði ég hæstv. heilbrigðisráðherra Álfheiði Ingadóttur hvort henni fyndist koma til greina að skoða það að allar 12 ára stelpur væru bólusettar gegn leghálskrabbameini. Hæstv. ráðherra, sem glímir auðvitað eins og aðrir ráðherrar við að koma saman fjárlögum og ramma í ráðuneyti sínu, gaf svo sem engin sérstök fyrirheit um það en sagðist vera tilbúin til þess að skoða það og nefndi í því sambandi kostnað á bilinu 125–140 milljónir. Mér fannst hins vegar á þeirri umræðu að ráðherrann hefði fullan skilning á þessu máli og væri tilbúin að skoða það með jákvæðum huga.

Það er annað sem ég vil nefna hér, frú forseti, áður en ég geri grein fyrir greinargerðinni sem fylgir með þingsályktunartillögunni, að ég hef fundið það frá því að ég lagði þetta mál fram að það hefur verið töluverð umræða um það. Hún er svo sem kannski ekkert ný af nálinni en hún fór þá af stað af auknum krafti meðal heilbrigðisstarfsfólks og ég var m.a. í útvarpsþætti ekki alls fyrir löngu með Þórólfi Guðnasyni lækni þar sem þetta var rætt. Þriðjudaginn 11. maí fer fram málþing í hringsal Landspítala – háskólasjúkrahúss um bólusetningar gegn HPV þar sem sérfræðingar á sviði krabbameinslækninga og sérfræðingar í kvensjúkdómum munu halda erindi auk þess sem ég mun gera grein fyrir þeirri þingsályktunartillögu sem við ræðum hér í dag. Er rétt að taka það fram að auk mín eru fjölmargar þingkonur úr öðrum flokkum sem eru með á þessu máli. Auðvitað hefði ég kosið að fá karlkyns þingmenn á þetta mál en þetta endaði svona. Það er kannski svo sem ekkert skrýtið því að þetta mál brennur meira á konum en körlum, held ég.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að hér á landi hafi leghálskrabbameinsleit hafist árið 1964. Nú eru konur á aldrinum 20–69 ára boðaðar til skoðunar á tveggja ára fresti. Sá árangur sem náðst hefur með þessu skipulega leitarstarfi er algjörlega ótvíræður og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Krabbameinsfélagsins hefur nýgengið lækkað um 64% og dánartíðni um 83% á þessu tímabili. Í greinargerð starfshóps sóttvarnalæknis um kostnaðarhagkvæmni bólusetningar frá 12. janúar 2008, sem er fylgiskjal með þessari þingsályktunartillögu, kemur fram að hér á landi greinast að meðaltali um 17 ný tilfelli af leghálskrabbameini og þrjú dauðsföll verða á ári hverju. Meðalaldur kvenna sem greinast með þetta krabbamein er 45 ár og hafa erlendar rannsóknir sýnt að þróun krabbameinsins eftir HPV-sýkingu getur tekið um 20 ár. Enn fleiri konur greinast þó með forstigsbreytingar og eru framkvæmdir yfir 300 keiluskurðir á ári þar sem hluti legháls er fjarlægður. Forstigsbreytingum í leghálsi er skipt í mismunandi stig eftir því hversu alvarlegar þær teljast. Vægar forstigsbreytingar geta horfið sjálfkrafa án þess að gripið sé til meðferðar en meðalsterkar og sterkar forstigsbreytingar hverfa aftur á móti síður af sjálfsdáðum og því fara konur ávallt í nánari skoðun með leghálsspeglun. Við speglunina er tekið lítið vefjasýni frá leghálsi en rannsókn þess ákvarðar hvort framkvæmdur er keiluskurður eða ekki.

Þessi HPV-veira er aðalorsakavaldur krabbameins í leghálsi. Það er talið að þessar veirur valdi um 70% allra leghálskrabbameina í heiminum, um 73% í Evrópu og um 60% hér á landi. Enn fremur er leghálskrabbamein algengasta tegund krabbameins á eftir brjóstakrabbameini hjá konum á aldrinum 15–44 ára innan Evrópusambandsins. HPV hefur lengi verið þekkt en í upphafi síðustu aldar uppgötvaðist eiginleiki veiranna til að smita. Með aukinni tækniþekkingu hefur HPV nú verið greind í marga stofna og yfir 100 undirflokka eða tegundir. Þær tegundir sem fyrst og fremst valda krabbameini í leghálsi eru HPV 16 og 18 og algengasta sýking HPV er á kynfærum og er kynhegðun fólks helsti áhættuþáttur fyrir smiti, sér í lagi ungur aldur við fyrstu kynmök og fjöldi rekkjunauta. Hér á landi hefur verið sýnt fram á það með rannsóknum að meðalaldur íslenskra kvenna þegar þær hafa fyrst kynmök eru 16 ár. Aftur á móti hafa um 20% stúlkna haft kynmök við 12 ára aldur en fátítt er að stúlkur hafi kynmök yngri en 12 ára. Þess vegna er í þessari þingsályktunartillögu talað um að miðað sé við allar 12 ára stelpur.

Fyrir fáeinum árum komu á markað tvö bóluefni gegn nokkrum stofnum HPV, þar á meðal þessum stofnum, 16 og 18. Bóluefnin eru ónæmisvekjandi og örugg og koma í veg fyrir forstigsbreytingar. Í greinargerðinni sem ég nefndi hér áðan er farið yfir skiptingu kostnaðar við hvert stig í greiningu leghálskrabbameins og kostnað við bólusetningu allra 12 ára stúlkna hér á landi. Kemur þar fram að bólusetning kemur í veg fyrir um 1,7 dauðsföll á ári og vinnur alls um 16,9 lífsgæðavegin lífár, eins og það heitir á læknamáli. Enn fremur kemur fram að á verðlagi ársins 2006 var árlegur kostnaður við bólusetningu um 47 millj. kr. og sparnaður um 17 millj. kr vegna fækkunar leghálskrabbameins og forstiga þess. Í niðurstöðum greinargerðarinnar kemur jafnframt fram að HPV-bólusetning virðist vera kostnaðarhagkvæm miðað við aðstæður hér á landi og út frá ákveðnum forsendum. Jafnframt hafa rannsóknir sýnt að aukaverkanir eru vægar.

Í skýrslu ráðgjafahóps heilbrigðisráðherra frá október 2008, sem endurskoðuð var í febrúar 2009 eru bólusetningar gegn pneumókokkasýkingum hjá ungbörnum settar í forgang. Það er mál sem við ræddum hér í þinginu ekki alls fyrir löngu þar sem 1. flutningsmaður var hv. þm. Siv Friðleifsdóttir en auk hennar eru fleiri þingmenn á því máli, m.a. ég. Um leið og talað er um mikilvægi pneumókokkabólusetninganna er líka sett í forgang bólusetning gegn leghálskrabbameini sem ég tala hér fyrir. Ég tel mjög mikilvægt að samhliða þessu verði haldið áfram því starfi sem unnið er á vegum Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands vegna þess að það eru jú aðrir stofnar HPV sem geta valdið leghálskrabbameini en hægt er að bólusetja fyrir. Það er einnig mjög mikilvægt að tekin verði ákvörðun eins fljótt og kostur er um að hefja þessar bólusetningar til þess að ávinningurinn sem af þeim hlýst geti nýst sem flestum konum hér á landi. Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands hefur skilað gríðarlega miklum árangri og hefur vakið heimsathygli fyrir sitt vel skipulagða leitarstarf og hlotið mikið lof í erlendum vísindatímaritum. Í 40 ár hefur þessi skipulagða leit farið fram og að bæta við skipulagðri bólusetningu samhliða þessu er að mínu mati liður í því að þróa og bæta enn frekar forvarnir gegn þeim mikla vágesti sem leghálskrabbamein er.

Ég vil líka segja það hér, frú forseti, að það vakti athygli mína þegar ég fór að skoða þetta mál og undirbúa tillöguflutninginn, var mér bent á að þetta bóluefni er til á Íslandi. Það er sem sagt hægt ef fólk kýs að kaupa þetta bóluefni og láta bólusetja dætur sínar við 12 ára aldur. Það er hins vegar mjög fátítt að það sé gert, það eru helst læknar og starfsfólk heilbrigðisgeirans sem nýta sér að kaupa þetta bóluefni. Ég veit að læknar og starfsfólk heilbrigðisgeirans hafa ekkert sérstaklega haldið því að almenningi að þessi möguleiki sé fyrir hendi, fyrst og fremst vegna kostnaðar vegna þess að þetta bóluefni er mjög dýrt, kostnaðurinn hleypur á tugum þúsunda króna, en það eru einhverjir tilbúnir til þess engu að síður að kaupa þetta bóluefni fyrir dætur sínar og bólusetja þær fyrir þessu. Það kom mér á óvart að þessi möguleiki væri til staðar. Mér er jafnframt sagt að víða erlendis hafi þessar bólusetningar verið teknar upp. Í því sambandi voru Grikkland og Bretland nefnd og svo Danmörk, að mig minnir, af Norðurlöndunum. Þar hafa menn náð fram hagstæðum samningum um kaup á þessu bóluefni þannig að kostnaðurinn er kannski ekki eins mikill og hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi hér í svari við fyrirspurn við mig hér um miðjan mars þegar hún talaði um 125–140 milljónir. Tvö lyfjafyrirtæki sem hafa verið að þróa bóluefni gegn þessari veiru og eru komin á markað tvö mismunandi bóluefni, Gardasil og Cervarix. Sérfræðingur Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins nefndi við mig að þannig stemning væri í Evrópu núna að fleiri lönd væru að kynna sér þetta og velta þessari leið fyrir sér. Það mætti jafnvel gefa sér að í framtíðinni mundi kostnaður vegna þessa bóluefnis fara minnkandi vegna þess að fleiri keyptu þetta bóluefni og því yrði framleiðslukostnaðurinn ekki eins mikill og hann er í dag. Ef önnur lönd tækju þetta upp væri hægt að ná hagstæðari samningum og lækka kostnaðinn.

Ég hef nú lokið við að gera grein hér fyrir þessari tillögu til þingsályktunar sem er, eins og segir í lokaorðum tillögunnar, sú að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að hefja undirbúning að þessum bólusetningum ásamt undirbúningi að bólusetningum allra ungbarna gegn pneumókokkasýkingum sem við ræddum hér á dögunum. Það væri æskilegt að þessar tvær tillögur væru unnar og ræddar samhliða. Ég hygg að það verði gert þegar báðar tillögurnar fara til hv. heilbrigðisnefndar til umfjöllunar.