138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

bólusetning gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini.

498. mál
[15:02]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um bólusetningu gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini. Þessari þingsályktunartillögu verður vísað til heilbrigðisnefndar ásamt annarri þingsályktunartillögu sem komið hefur fram og einnig hefur verið vísað til nefndarinnar, þingsályktunartillögu um að hefja undirbúning á bólusetningu allra ungbarna gegn pneumókokkasýkingum. Ég tel mjög ánægjulegt að þessar þingsályktunartillögur skulu báðar vera komnar fram, að þær fái meðferð í heilbrigðisnefnd og að unnið verði samhliða að þeim báðum.

Ég er sannfærð um að báðar þessar bólusetningar, og sérstaklega bólusetning gegn pneumókokkum hjá ungbörnum, muni koma fram innan tíðar og þá pneumókokkabólusetningarnar fyrr vegna forgangsröðunar og forvarnagildis. Ég er alveg sannfærð um að innan fárra ára verður talið sjálfsagt að bólusetja gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini en ég verð þó að segja að þar til það verður, og auðvitað verður að setja bólusetninguna og skimun inn í tímaáætlun, ber okkur að standa vörð um þær forvarnir sem við höfum í dag, þ.e. fræðslu. Það er ákveðin áhættuhegðun sem eykur líkur á þessu vörtusmiti, það er þegar stúlkur byrja ungar að lifa kynlífi, eiga marga rekkjunauta og það er einnig ákveðin tíska sem hefur verið um nokkra hríð að konur raki kynfæri sín og það að raka reglulega kynfærin eykur sem sagt líkur á smiti. Það er því mikilvægt að efla fræðslu og standa vörð um það að fræðsla til ungra stúlkna skili árangri, komist til þeirra og að ungar stúlkur átti sig á því hvaða áhættu þær eru að taka.

Það sem skiptir máli fyrir okkur er að standa vörð um Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands, að skipulögð leit, sem sagt skimun gagnvart leghálskrabbameini, falli ekki niður, að ungar konur séu hvattar til að mæta til skimunar. Þó að ungar stúlkur séu bólusettar ver bólusetningin ekki 100% gegn smiti og það er líka ákveðin áhætta tekin með því að treysta um of á bólusetningarnar og draga úr skipulegri leit. Þetta verður að fara saman og þar til bólusetningarnar komast á er mjög mikilvægt að standa vörð um Leitarstöðina og eins þá hvatningu að ungar stúlkur skili sér í þessa skimun. Það hefur aðeins borið á því að ungar stúlkur hafi skilað sér verr en áður og það þarf að hvetja þær til þess að fara í skimun. Bóluefnið er í þróun. Það mun líklega verða með þetta bóluefni eins og önnur að verðið mun lækka eftir því sem þróun bóluefnis heldur áfram og þá færist kostnaður niður. Það er gott til þess að vita þegar bólusetningar hefjast.

Áhugi margra Evrópuþjóða á að taka upp bólusetningu kemur ekki síst til af því að það heyrir til undantekninga að það sé jafngóð skimun og leit að leghálskrabbameini eins hér er á landi. Það er horft til okkar vegna þess hvað skimunin er markviss, hvað konur mæta vel, og þar af leiðandi hefur það skilað góðum árangri. Það er mjög víða sem engin skipulögð skimun er og einmitt hjá þeim þjóðum er bólusetning mikilvæg til að draga úr dauðsföllum af þessum sökum. En bólusetning ein og sér kemur aldrei í stað skimunar eða kemur algerlega í veg fyrir leghálskrabbamein.

Ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga skuli koma fram og tel mjög mikilvægt að vinna báðar þingsályktunartillögurnar saman í hv. heilbrigðisnefnd.