138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

bólusetning gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini.

498. mál
[15:08]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sú er hér stendur er einn af flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu. Ég tel að þetta mál sé jákvætt og það beri að taka upp þessar bólusetningar. Það er einungis spurning um tíma hvenær það verður gert.

Mig langar líka að minnast á bólusetningar gegn pneumókokkasýkingum ungbarna af því að mér finnst það vera mjög tengt þessu máli og reyndar hafa báðir hv. þingmenn sem hér hafa talað á undan minnst á það. Mig langar til að draga það sérstaklega fram, ég er 1. flutningsmaður að slíku máli, að það verði tekið upp hið fyrsta að bólusetja börn gegn pneumókokkum og hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir er 2. flutningsmaður að því máli þannig að við erum á þessum málum í kross, má segja, auk fleiri þingmanna. Mig langar aðeins að draga þetta fram vegna þess að það var svolítið merkilegt hvernig þessi umræða fór á stað.

Á sínum tíma var mikið rætt um að fara í ristilskimanir og það er líka mjög jákvætt mál. Það voru fluttar þingsályktunartillögur um það í þinginu og ég var m.a. á slíkri tillögu. Þessi mál voru öll skoðuð faglega í heilbrigðisráðuneytinu og af sérfræðingum í samfélaginu. Vegna takmarkaðra fjármuna var reynt að forgangsraða faglega hvað ætti gera fyrst til að þetta yrði gert með yfirveguðum hætti en ekki hlaupið til og eitthvað tekið fram fyrir vegna hugsanlega þrýstings sem ætti annars að vera síðar í röðinni. Þetta er eitthvað sem við sem höfum fylgst með heilbrigðismálum þekkjum.

Ég vil nefna fólk með mjög sjaldgæfa sjúkdóma, t.d. börn, það þarf að gæta mjög vel að því að meðferð sé eins fyrir alla. Þetta hefur verið skoðað sérstaklega hjá stofnunum sem gæta hagsmuna barna, þ.e. hvort látið sé undan vegna þrýstings gagnvart því að taka einhverja aðra fram fyrir í meðferð. Það er þekkt fyrirbæri, t.d. varðandi börn sem haldin eru mjög sjaldgæfum sjúkdómum. Ég hef sérstaklega heyrt af þessum málum í Noregi. Þar og víðar hafa menn reynslu af því að börn hafa verið tekin fram fyrir í meðferð vegna þrýstings jafnvel frá sterku félagi, sterkum foreldrum o.s.frv. þar sem m.a. hefur verið farið með málin í fjölmiðla. Þá hrekjast menn undan umræðunni og sumir fá meiri meðferð en aðrir þannig að þetta er vandmeðfarið.

Ég vil draga þetta fram vegna þess að það blossaði upp umræða um hvað ætti að gera í samfélaginu, ég varð vör við að það var mikill þrýstingur gagnvart bólusetningu við leghálskrabbameini og ég skil það að mörgu leyti. Það var mjög lítill þrýstingur vegna bólusetningar ungbarna gegn pneumókokkum og maður spyr sig: Af hverju er það? Ég held að ástæðan sé sú, og það er skiljanlegt, að margir hafa áhuga á þessu máli. Þetta snertir kannski hóp fullorðinna, unglinga og fullorðna, en börnin hafa einhvern veginn setið eftir í þessu tilliti. Ef það hefði verið í takt við faglega þáttinn hefði blossað upp mikill þrýstingur vegna bólusetningar gegn pneumókokkum, gagnvart börnum.

Upp á síðkastið hefur verið heilmikil umræða um þetta mál. Það hafa verið viðtöl við lækna í blöðum sem hafa sagt þar, og það er rétt, að sumir hafa látið sprauta dætur sínar gegn HPV. Það kostar 90 þús. kr., hefur verið sagt, og er kannski ekki á allra færi að gera það vegna kostnaðar. Bæði læknar og leikmenn hafa því farið í fjölmiðla til að ræða þessi mál. Það er líka ráðstefna sem ég veit ekki hvort er búin, þar sem heilbrigðisstarfsfólk stóð fyrir umræðu, sem er mjög eðlilegt að gera. Þar átti m.a. að ræða hvort bóluefnið væri betra gegn HPV-veirunni. Maður verður alltaf svolítið var um sig þegar umræðan fer mikið að snúast um heiti lyfja og lyfjafyrirtækja. Þetta segi ég bara til að draga það fram að þegar við stjórnmálamenn þurfum að forgangsraða þurfum við að gæta þess mjög vel að hafa fagleg sjónarmið að leiðarljósi. Þess vegna vil ég taka undir að þetta mál er gott og brýnt og ég styð það, en það er enn brýnna að byrja á bólusetningum vegna pneumókokka.

Bæði þessi mál fara til heilbrigðisnefndar. Pneumókokkamálið er komið þangað og hefur fengið umfjöllun opinberlega að einhverju leyti þegar fjölmiðlar áttuðu sig á því að það raðast ofar faglega séð en sprautur eða bólusetning gegn HPV-veirunni. Umræðan hefur því aðeins jafnast út og ég vona að við náum að landa báðum málunum, ef svo má að orði komast, að við getum hafið bólusetningar gegn pneumókokkum, en við erum heimsmeistarar í að setja rör í börn út af eyrnabólgu vegna pneumókokka og meira en helmingur sýklalyfja sem börn nota er vegna eyrnabólgu út af pneumókokkum og öðrum pneumókokkasýkingum barna. Ég vona líka að það mál sem við ræðum nú nái í gegn þannig að það er annaðhvort að samþykkja annað málið eða bæði í einu. Þar liggur kannski vandinn fyrir okkur af því að það eru ekki til ótakmarkaðir fjármunir. Báðar þessar bólusetningar eru kostnaðarhagkvæmar. Þó að bólusetning gegn pneumókokkum barna sé kostnaðarhagkvæmari eru þær báðar kostnaðarhagkvæmar og það er mjög æskilegt að klára bæði þessi mál.

Ég vil líka nefna varðandi þetta mál að mér skilst að allar stúlkur í 7. bekk í Noregi séu sprautaðar gegn HPV-veirunni þannig að vonandi getum við fylgt í fótspor Norðmanna. Mér þykir verulega óþægileg umræðan um að sumir foreldrar láti sprauta dætur sínar meðan aðrir hafa ekki tök á því. Það væri auðvitað best ef allar stúlkur hefðu kost á þessu og það er vandinn sem við stöndum frammi fyrir þegar fólk borgar sig inn í heilbrigðiskerfið til að fá betri og meiri þjónustu en aðrir. Það er þetta eilífa vandamál að borga sig fram fyrir, sem er truflandi.

Virðulegi forseti. Ég styð þetta mál en set aðeins fingurinn á að við verðum að gera hlutina mjög faglega og í réttri röð. Það þýðir þá að afgreiða bólusetningar barna nr. eitt og nr. tvö bólusetningar gegn HPV-veirunni. Svo koma önnur atriði til skoðunar þegar þetta tvennt er búið, þá þarf hugsanlega að skoða þetta allt upp á nýtt miðað við hvað eftir er, hvað önnur ríki gera og hvaða skref á að taka miðað við fagleg sjónarmið eftir að þessum málum báðum er landað.