138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

efling græna hagkerfisins.

520. mál
[15:33]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari tillögu til þingsályktunar sem hv. þm. Skúli Helgason flytur. Það er greinilega mikil sátt um þessa tillögu vegna þess að hátt í þriðjungur þingmanna stendur að henni og er það eðlilegt þar sem málefnið er mjög gott í alla staði.

Umræðan og ræða hv. þingmanns eru í beinu framhaldi af því sem rætt var fyrr í dag í utandagskrárumræðu um umhverfismál þar sem flestir voru sammála um nauðsyn þess að gæta vel að umhverfismálum bæði í atvinnulífi og ekki síður í samgöngumálum til að tryggja að til verði heildstæð stefna í grænu hagkerfi, við megum alls ekki gleyma samgöngunum í því samhengi.

Ég styð heils hugar að nefndin verði sett á laggirnar og fagna sérstaklega því hlutverki hennar sem lagt er til í tillögunni, með leyfi forseta:

„Nefndin skal m.a. gera tillögur um stjórnvaldsaðgerðir og úrbætur á stoðkerfi atvinnulífsins sem ýtt geti undir vöxt græna hagkerfisins auk þess að leita leiða til að samþætta hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar almennri ákvarðanatöku í efnahags- og atvinnumálum.“

Þetta kemur heim og saman við niðurstöður þjóðfunda í landshlutum sem haldnir voru fyrr í vetur undir merkjum Sóknaráætlunar fyrir Ísland. Niðurstaðan eftir þá átta þjóðfundi var sú að almennt er kallað eftir stjórnvaldsaðgerðum til að hægt sé að hrinda í framkvæmd vistvænni og grænni atvinnustarfsemi. Það segir m.a. í niðurstöðum sem kynntar voru á fundi á Akureyri fyrr í vetur að ríkisvaldið þurfi að koma verulega inn í eflingu og viðhald á grunngerð ferðaþjónustu og hlúa að þekkingu, rannsóknarstarfi og sérstaklega að orkunýtingu.

Niðurstöður þessa þjóðfunda leiða í ljós svo að ekki verður um villst að menn binda miklar vonir við það að sóknarfæri Íslendinga séu í hreinni orku, orkunýtingu, þekkingu og öðru sem snýr að því sem kallað hefur verið grænt hagkerfi. Það er reyndar athyglisvert þegar maður skoðar niðurstöðurnar, sem eru aðgengilegar á slóðinni www.island.is, og verður án efa mjög gott innlegg í starf þessarar nefndar, ef af henni verður, að talsvert meiri áhugi er á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu á að efla það sem heitir græn orka, grænar samgöngur og þekkingariðnaður. Úti á landi er megináhersla lögð á að menn líti á helstu sóknarfæri einstakra landshluta í ferðaþjónustu en, eins og hv. þingmaður kom inn á, er ferðaþjónusta mikilvægur liður í því sem skilgreina má sem grænt hagkerfi.

Það vekur einmitt athygli ef maður lítur á þessar niðurstöður að mjög fáir binda vonir við stóriðju. Mjög fáir nefna stóriðju sem helsta sóknarfæri Íslands eða einstakra landshluta í framtíðinni, það er meiri áhersla á það sem við köllum grænt hagkerfi. Þegar talað er um stóriðju er m.a. rætt um sólarkísilframleiðslu sem við flokkum sem stóriðju en við verðum auðvitað að hafa hugfast að stóriðja er ekki það sama og stóriðja og sum stóriðja er beinlínis mjög væn og græn.

Samkeppnishæfni þjóða byggist fyrst og fremst á því hvernig þeim tekst að nýta þær auðlindir sem þær hafa. Við höfum borið gæfu til að nýta auðlindir okkar ágætlega þótt betur megi gera. Ég held að þessi þingsályktunartillaga þar sem lögð er sérstök áhersla á að efla það sem heitir grænt hagkerfi sé mjög skynsamleg viðbót við það sem nú þegar er unnið að á vettvangi sóknaráætlunar og í samræmi við rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða og fleiri áætlanir sem hafa verið ræddar í þinginu undanfarna daga.

Ég styð eindregið þessa hugmynd og vonast til að sjá þessa nefnd verða að veruleika sem fyrst og að þingið muni sammælast um að koma í gegn þeim hugmyndum sem nefndin leggur fram.