138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

kennitöluflakk.

497. mál
[15:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir að mæla fyrir þessu máli. Eins og fram kom í máli hennar er ég meðflutningsmaður að frumvarpi til laga um breytingu á lögum til að draga úr kennitöluflakki. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Við stöndum á miklum tímamótum sem þjóð. Það hefur nú verið staðfest í rannsóknarskýrslunni að þetta er kannski eitt af því sem hefði átt að vera búið að setja inn í íslensk lög fyrir löngu. Þingmaðurinn nefndi ágætt dæmi, sem var í fjölmiðlum í morgun, um það þegar skipt er um kennitölu á fyrirtæki. Skuldir gömlu kennitölunnar eru afskrifaðar og fólk heldur áfram með sinn rekstur eins og ekkert hafi í skorist.

Mér hafa borist ábendingar um að frumvarpið stangist á við félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem kemur fram að fólk eigi að geta stofnað þau félög sem það vill, í friði fyrir löggjafanum og stjórnvöldum. Því er til að svara að ég hef skoðað málið mjög vel og það er leyfilegt, í vissum tilfellum, að ganga að litlu leyti inn á stjórnarskrárvarinn rétt. Það er leyfilegt þegar ríkir almannahagsmunir krefjast þess. Þetta hefur verið staðfest í þó nokkrum hæstaréttardómum og þar vikið lítillega frá þeim rétti sem fólk hefur samkvæmt stjórnarskránni. Þetta mál er algerlega þannig upp byggt, að ríkir almannahagsmunir krefjast þess að gengið sé á félagaréttinn með þessu móti. Hver er það annar en þjóðin sjálf og skattgreiðendur sem með sköttum sínum þurfa að borga tapið sem fyrirtækin skilja eftir sig?

Ég tel þetta vera svo ríka almannahagsmuni að þeir réttlæti að frumvarpið sé lagt fram, enda er ég meðflutningsmaður þess. Frumvarpið er nýtt af nálinni hér á landi en flutningsmenn sækja fyrirmyndir til lagasetninga á Norðurlöndunum. Í danskri löggjöf er ríkt ákvæði um bann við kennitöluflakki. Þetta þekkist alls staðar í kringum okkur. Í aðdraganda samþykktar á EES-samningnum, þegar við þurftum að taka upp löggjöf sem varða þessi mál, fjórfrelsið og m.a. innleiða lög um einkahlutafélög og hlutafélög, létum við því miður undir höfuð leggjast að setja þetta inn í þá löggjöf. Það þótti þrengja um of að þessum félögum. Hafi hrunið kennt okkur eitthvað þá er það það, að okkur ber skylda til að setja vandaða löggjöf. Okkur ber skylda til að setja löggjöf sem stoppar upp í götin sem hrunið leiddi af sér. Þetta er byrjunin á því.

Ég vil þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir að hafa frumkvæði að þessu mjög svo brýna máli. Ég bind miklar vonir við frumvarpið. Ég vona að það fái hraða meðferð hjá nefndum þingsins og verði brátt að lögum því það er ein stoðin sem við þurfum á að halda til að reisa okkur við. Þegar félög hafa farið í þrot eiga eigendurnir ekki að geta komið aftur og aftur inn í íslenskt atvinnulíf til þess eins, ef svo má segja, að blóðmjólka þjóðina. Almannahagsmunir krefjast þess að slíkt rugl verði stöðvað.